135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fullgilding þriggja Haag-samninga á sviði réttarfars.

499. mál
[20:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar samnings um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954, samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum, frá 15. nóv. 1965, og samnings um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum, frá 18. mars 1970. Samningar þessir voru allir gerðir í Haag.

Þessir þrír samningar komu í stað samnings um einkamálaréttarfar sem gerður var á vegum Haag-ráðstefnunnar árið 1905 og öðlaðist gildi hvað Ísland varðar þegar hann var fullgiltur af hálfu Danmerkur árið 1909. Meginmarkmið samninganna er að efla samvinnu milli ríkja til að greiða fyrir rekstri dómsmála. Stefnt er að því að ryðja úr vegi hindrunum milli ríkja vegna ólíkra réttarkerfa og jafnframt að efla réttaröryggi þegar dómsmál varða aðila og hagsmuni í fleiri ríkjum.

Samningurinn frá 1954 kveður m.a. á um að ríkisborgurum samningsríkis, sem búsettir eru í einhverju þeirra, verði ekki gert að leggja fram málskostnaðartryggingu vegna þess að þeir eru útlendingar eða án fastrar búsetu í því landi þar sem mál er höfðað. Enn fremur er mælt fyrir um að ríkisborgarar samningsríkjanna skuli hafa sama aðgang að réttaraðstoð og ríkisborgarar í því samningsríki þar sem réttaraðstoðar er leitað í samræmi við löggjöf þess ríkis. Þá er í samningnum komið í veg fyrir að frelsissviptingu verði beitt sem nauðungarúrræði til að skapa varnaðaráhrif gagnvart útlendingum sem eru ríkisborgarar samningsríkis í tilvikum þar sem frelsissviptingu verður ekki beitt gagnvart borgurum viðkomandi ríkis.

Samningur um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum stefnir að því að bæta skipulag gagnkvæmrar aðstoðar í dómsmálum með einfaldari og skjótari framkvæmd með því að kveða m.a. á um hvernig birtingu réttarskjala verði háttað í samningsríkjunum. Sú skylda er t.d. lögð á samningsríkin að tilnefna miðlægt stjórnvald til að annast birtingu réttarskjala frá öðrum samningsríkjum. Samningurinn hefur þó einnig að geyma ákvæði um birtingu réttarskjala fyrir mönnum sem staddir eru erlendis með öðrum hætti, að uppfylltum vissum skilyrðum. Kveðið er á um að beiðni um birtingu verði ekki hafnað nema ríkið sem beiðni er send til telji framkvæmd hennar íhlutun í fullveldi sitt eða öryggi.

Markmið samnings um öflun sönnunargagna er að auðvelda sendingu og framkvæmd réttarbeiðna og greiða fyrir mismunandi aðferðum sem ríki beita í því skyni, jafnframt því að bæta samvinnu ríkja á sviði einkamála og verslunarmála. Samningurinn hefur að geyma ákvæði um öflun sönnunargagna, annars vegar með réttarbeiðni og hins vegar fyrir milligöngu sendierindreka, ræðiserindreka eða sérstaklega tilnefndra manna.

Samkvæmt birtingarsamningnum og samningnum um öflun sönnunargagna skulu samningsríkin tilnefna miðlæg stjórnvöld til að sinna þeim málefnum sem falla undir samningana. Hvað Ísland varðar er gert ráð fyrir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið fari með þetta hlutverk en það gæti falið öðru stjórnvaldi að sinna ákveðnum viðfangsefnum á sviði samninganna.

Gert er ráð fyrir að nokkrir fyrirvarar verði gerðir af Íslands hálfu við umrædda samninga samkvæmt ákvæðum þeirra og er þeim lýst í þingsályktunartillögunni. Fullgilding þessara samninga kallar á breytingar á lögum hér á landi og hefur dóms- og kirkjumálaráðherra lagt frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og að þeim breytingum gerðum munu engar hindranir standa í vegi fyrir fullgildingu samninganna af Íslands hálfu.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.