135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Kanada.

543. mál
[20:33]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil koma örfáum orðum að hér í fyrri umræðu. Hæstv. utanríkisráðherra hefur fylgt úr hlaði tillögu til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA og Kanada. Í framhaldi af ræðu hæstv. ráðherra langar mig að fara nokkrum orðum um það mikilvæga starf sem EFTA vinnur á þessum vettvangi og hlutverk þingmannanefndar EFTA í því sambandi, en sá sem hér stendur á sæti í þingmannanefndinni.

Í hugum margra tengist EFTA fyrst og fremst EES-samningum sem önnur stoð hans á móti Evrópusambandinu. Hin hliðin á EFTA, sem fallið hefur í skuggann af EES-samstarfinu, er aukin sókn EFTA á sviði fríverslunar með gerð fríverslunarsamninga við ríki utan Evrópusambandsins. Í kjölfar þess að Doha-lota Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur siglt í strand hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga og ljóst er að samkeppnin fer harðnandi á því sviði.

Gildir fríverslunarsamningar EFTA eru nú 15 talsins og hafa engin ríkjasamtök náð meiri árangri í því tilliti, að Evrópusambandinu undanskildu. EFTA-ríkin eru tiltölulega smá hagkerfi sem eru mjög háð utanríkisviðskiptum og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum. Í sameiningu teljast EFTA-ríkin þó tólfta stærsta hagkerfi heims og í krafti þeirrar stærðar hefur það verið álitlegur kostur fyrir önnur ríki að semja við EFTA sem eina heild. Ávinningurinn er meiri og samningur því eftirsóknarverðari en ef boðið væri upp á fríverslunarsamninga við einstök EFTA-ríki. Það er alveg ljóst að við Íslendingar höfum í krafti samstarfsins innan EFTA tryggt okkur aðgang að stórum og mikilvægum mörkuðum sem óhugsandi er að við hefðum náð án slíks samflots.

Fríverslun við ríki utan Evrópusambandsins hefur verið ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA og hún hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA. Það hefur verið lengi rætt innan þingmannanefndarinnar að beita sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga. Fyrsta heimsókn þessarar tegundar var einmitt farin til Kanada í febrúar 2007 til þess að þrýsta á um jákvæða niðurstöðu í yfirstandandi fríverslunarviðræðum EFTA og Kanada og til að tryggja stuðning kanadískra þingmanna við slíkt samkomulag. Í því skyni áttu fulltrúar þingmannanefndar EFTA árangursríka fundi með utanríkisviðskiptanefnd fulltrúardeildar og utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar á kanadíska þinginu. Enn fremur var fundað með David Plunkett, aðalsamningamanni Kanada í fríverslunarviðræðum.

Á fundunum fóru fram hreinskiptnar viðræður um gagnkvæma hagsmuni samningsaðila af fríverslun. Kanada er afar háð utanríkisviðskiptum og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum rétt eins og EFTA-ríkin og fríverslun er því mikið hagsmunamál beggja aðila. Samningaferlið var hins vegar búið að standa yfir í langan tíma og þolinmæði margra EFTA-ríkjanna orðin afskaplega takmörkuð og menn orðnir langeygir eftir niðurstöðu. Það var skipasmíðaiðnaðurinn í Kanada sem var helsta hindrum þess að samningar næðust um langt skeið en eins og hæstv. ráðherra hefur vikið að tókst samkomulag um 15 ára aðlögunartíma Kanada til niðurfellingar tolla á skip og sjóför og lauk samningaviðræðunum því í júní 2007.

Fríverslunarsamningurinn milli EFTA og Kanada mun skapa ný og spennandi tækifæri í viðskiptum ríkjanna. Það er að sjálfsögðu kappsmál fyrir okkur Íslendinga að auka viðskiptaleg tengsl við Kanada, land sem Ísland tengist sterkum sögulegum og menningarlegum böndum allt frá fólksflutningunum miklu vestur um haf og stofnun byggða Vestur-Íslendinga. Sá fríverslunarsamningur sem hér er til umræðu að fullgilda er mikilvægt tæki til þess.

Virðulegi forseti. Í umræðu um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra í dag greindi ég frá heimsókn sendinefndar EFTA-þingmanna til Indlands í síðustu viku. Ég tók þátt í þeirri heimsókn sem var farin í sama tilgangi og sú sem að framan er lýst til Kanada. EFTA og Indland hafa gert hagkvæmnikönnun á mögulegum fríverslunarsamningi og niðurstaða hennar var að fríverslunarsamningur yrði báðum aðilum hagkvæmur. Á Davos-fundinum í janúar sl. undirrituðu ráðherrar EFTA-ríkjanna og Indlands samkomulag um að hefja formlegar fríverslunarviðræður. Gert er ráð fyrir að samningurinn nái til vöruviðskipta og þjónustuviðskipta opinberra innkaupa, fjárfestinga, samkeppnismála og hugverkaréttinda. Frá því í janúar hafa EFTA-ríkin beðið þess að Indverjar yrðu tilbúnir að hefja formlegar viðræður en í síðustu viku áttu EFTA-þingmenn viðræður við utanríkismálanefnd og viðskiptanefnd indverska þingsins. Einnig var fundað með ráðuneytisstjóra viðskiptaráðuneytis Indlands auk viðskiptaráðs og samtökum iðnaðarins þar í landi. Fundirnir tókust vel og við áttum gagnleg skoðanaskipti um hvernig fríverslun og aukið fjárfestingastreymi á milli eins ólíkra hagkerfa og hér um ræðir gæti orðið ríkjunum til hagsbóta. Það kom fram í viðræðum okkar við Indverja að þeir telja ekkert að vanbúnaði að setjast að samningaborði innan 60 daga og eru það sérlega jákvæðar fregnir.

Virðulegi forseti. Indverska hagkerfið hefur undanfarin ár vaxið mjög hratt og um leið opnast fyrir alþjóðlegum viðskiptum. Með þessu hafa skapast ný tækifæri sem ættu að nýtast íslenskum fyrirtækjum í útrás og við höfum þegar dæmi um þetta í Indlandi. Íslensk fyrirtæki hafa þegar sýnt stórhug og náð umtalsverðum árangri í að hasla sér völl á Indlandi og fríverslunarsamningar, ef þeir takast við Indland, munu opna okkur frekari dyr.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um fyrirhugaðar viðræður við Indland. Ég nefni þær bara hér til viðbótar við samninginn við Kanada til merkis um það mikilvæga starf sem unnið er á vettvangi EFTA. Það er starf sem við EFTA-þingmenn styðjum dyggilega, það eykur viðskiptafrelsi og tækifæri okkar smáu hagkerfa á sífellt alþjóðlegri markaði.