135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2007, um breytingu á IX. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

557. mál
[20:49]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara efnislega í þá tillögu sem hér er til umræðu og hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir, heldur fjalla aðeins um það vinnulag sem viðhaft er í þinginu við innleiðingu ákvarðana EES-nefndarinnar sem byggja á tilskipunum Evrópusambandsins.

Fram kemur í athugasemd við þingsályktunartillöguna, um þá ákvörðun sem er til umfjöllunar, nr. 20/2007, að hún muni kalla á lagabreytingu hér á landi og því hafi hún verið tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í greinargerðinni er aðeins fjallað um stjórnskipulegan fyrirvara og hvað felst í honum. Hér er m.a. sagt, með leyfi forseta:

„Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvort tveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.“

Mig langar sem sagt að fjalla aðeins um það hvernig gerðir, tilskipanir, ber að Alþingi í þessu samhengi, einkum og sér í lagi þegar um það er að ræða að gerður er stjórnskipulegur fyrirvari vegna þess að lagabreytinga er þörf.

Ég er þeirrar skoðunar, og veit að margir deila þeim sjónarmiðum með mér, og væntanlega gerir hæstv. utanríkisráðherra það einnig, að mikilvægt sé að Alþingi sé vel upplýst um það sem verið er að gera á hverjum tíma og um það sem verið er að vinna að á hverjum tíma á vettvangi EES-samningsins og þeirra skuldbindinga sem hann hefur í för með sér, einkum og sér í lagi ef það kallar á atbeina Alþingis að fullnægja þeim tilskipunum eins og hér á við.

Árið 1994 samþykkti forsætisnefnd Alþingis ákveðnar reglur um þinglega meðferð EES-mála á mótunarstigi. Í þeim reglum er lýst hlutverki utanríkisráðuneytisins, hlutverki utanríkismálanefndar, hlutverki fastanefnda og hlutverki Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA, en segja má að það séu þessir aðilar sem koma að málum og þar er því lýst hvernig þingleg meðferð mála af þessum toga á að vera.

Nú eru liðin fjórtán ár frá því að þessar reglur voru settar af forsætisnefnd og mætti ætla að það væri nokkuð ríflegur aðlögunartími fyrir reglur af þessum toga og kominn tími til að innleiða þær í störfum Alþingis. Það hefur alls ekki verið gert þó að mér sé kunnugt um að verið sé að vinna að því af hálfu utanríkismálanefndar og utanríkisráðuneytisins að færa þau mál í betra horf.

Ég er þeirrar skoðunar að þær reglur sem settar voru 1994 séu mjög skýrar í þessu efni, þær séu fullnægjandi fyrir alþingismenn. Þar er gert ráð fyrir því að utanríkisráðuneytið láti utanríkismálanefnd í té tillögur Evrópusambandsins á mótunarstigi og tillögur sem kunna að verða að EES-reglum. Utanríkismálanefnd fjalli um þær, þær fari eftir atvikum til umfjöllunar í viðkomandi fastanefndum sem hafi tilteknu hlutverki að gegna, að þær fari efnislega yfir þau atriði sem viðkomandi tilskipun fjallar um og tekur á. Jafnframt er gert ráð fyrir því að utanríkismálanefnd haldi reglulega fundi með þingmannanefnd EFTA til að ræða um EES-málin. Reyndar er talað um einn fund í mánuði til að ræða EES-mál sérstaklega í þessu samhengi.

Einnig er talað um að Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA annist samskipti við fastanefnd EFTA og sameiginlegu EES-þingmannanefndina eins og hún gerir að sjálfsögðu og hún eigi að koma á framfæri við utanríkismálanefnd upplýsingum um það EES-starf sem fram fer hjá þessum aðilum.

Þetta er sem sagt ekki gert nema að verulega litlu leyti og raunar að allt of litlu leyti. Þess vegna er það væntanlega sem margir þingmenn, m.a. þeir sem eiga sæti í utanríkismálanefnd, hafa upplifað það á þann veg að þeir standi frammi fyrir algjörlega gerðum hlut þegar að því kemur að festa í lög tilskipanir sem sameiginlega EES-nefndin hefur áður gengið frá fyrir sína hönd. Þetta er ekki góð latína.

Það er mikilvægt, að mínu mati, að fram fari efnisleg umræða um þessi mál á mótunarstigi hér á hv. Alþingi, í sölum Alþingis og í viðkomandi þingnefndum. Það mundi eiga sér stað ef reglum forsætisnefndar frá febrúar 1994 væri fylgt. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að innleiða þær reglur sem hafa nú fengið fjórtán ára aðlögunartíma, það ætti ekki að vera neinum vanda undirorpið að hrinda þeim í framkvæmd.

Þegar mál af þessum toga kemur hér inn ætti í raun að liggja fyrir hvaða lagabreytingar það eru sem viðkomandi tilskipun kallar á. Ég vil taka það fram að þetta á ekkert sérstaklega við um þessa tilskipun. Þetta á við um allar tilskipanir sem hér koma inn frá sameiginlegu EES-nefndinni. Ég hefur áður vakið máls á þessu, og fleiri þingmenn, í umræðum um önnur mál sem hafa komið hér inn á fyrri stigum. Mér finnst mikilvægt að koma þessu á framfæri hér í þessari umræðu.

Í þessu tilfelli segir að gert sé ráð fyrir því að á haustþingi 2008 komi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga. Ég velti því fyrir mér hvort það liggur ekki fyrir á þessu stigi í hverju þær breytingar eru fólgnar, hvort ekki væri eðlilegast að þegar málið kemur til umfjöllunar á Alþingi liggi a.m.k. fyrir uppkast af lagafrumvarpi þar sem umræddar breytingar koma fram og menn geti þá fjallað um þær efnislega.

Þetta vildi ég nú láta koma fram í þessari umræðu. Þetta snertir ekki inntak umræddrar tilskipunar sérstaklega heldur fyrst og fremst málsmeðferðina. Ég vil líka velta því upp í þessu samhengi, af því að lagt hefur verið til að þessi tilskipun fari til umfjöllunar í utanríkismálanefnd eins og eðlilegt er, að þá væri jafnframt eðlilegt að utanríkismálanefnd leitaði álits annarra nefnda, fastanefnda eftir atvikum, eins og reglurnar frá 1994 gera ráð fyrir. Mér finnst eðlilegt að hv. utanríkismálanefnd taki þá á því, bæði hvað varðar þessa tilskipun og þá sem er hér næst á dagskrá, hvort ekki sé rétt að viðhafa þau vinnubrögð.