135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[21:09]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp vegna þess sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson impraði á eða kom inn á í tengslum við bæði þessa þingsályktunartillögu og hina fyrri sem ég mælti fyrir þar sem verið er að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem gera ráð fyrir því að gera þurfi ákveðnar breytingar á íslenskum lögum eða reglum til þess að innleiða í íslenskan rétt þessar ákvarðanir eða gerðir Evrópusambandsins.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hans að það er mikilvægt að breyta því vinnulagi sem hefur verið í kringum innleiðinguna á þessum gerðum. Ég tók það raunar upp sérstaklega og ræddi það þegar skýrsla utanríkisráðherra um Evrópumál var hér til umfjöllunar að þetta þyrfti að gerast og þingið þyrfti að koma fyrr að því að reyna í fyrsta lagi að hafa áhrif á gerðir sem eru á undirbúningsstigi og síðan að móta með hvaða hætti þær eru teknar upp í okkar lög og reglur.

Ég hygg að það sé enginn ágreiningur um þetta, að allir þingmenn séu sammála um að þetta þurfi að færa til betri vegar. Það er vinna í gangi núna milli formanns utanríkismálanefndar og utanríkisráðuneytisins til að setja þetta allt í fastari skorður en verið hefur. Þótt ráðuneytið eigi eflaust einhvern hlut að þessu máli hygg ég að utanríkismálanefnd Alþingis á undanförnum árum hafi líka verið dálítið sofandi fyrir því að kalla eftir því að farið væri eftir þeim reglum sem forsætisnefnd setti á sínum tíma. Ég minnist þess ekki, ég skal játa það, að menn tækju þetta nokkurn tíma til umfjöllunar þann tíma sem ég sat í utanríkismálanefnd eða væru að spyrja út í þessa hluti eða kalla eftir einhverjum gerðum frá Evrópusambandinu.