135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

fullgilding bókunar við alþjóðasamninga gegn pyndingum.

453. mál
[12:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör og fagna því að málið er þá á hreyfingu. En mér finnst þetta hafa tekið ansi langan tíma. Það getur ekki verið flókið viðfangsefni að setja einföld ákvæði í lög sem heimila þetta eftirlit. Reyndar hef ég áhuga á að fá að sjá hvað það er sér sem þarf beins lagaatbeina við í þessum efnum nema þá það eitt að heimila að taka á móti og fela og heimila utanaðkomandi sendinefndum að kynna sér mál.

Það kann að vera að menn telji að taka þurfi af vafa með lagastoð í þeim efnum. En það er örugglega í okkar valdi að fela t.d. einhverjum innlendum aðila með samningi eða erindisbréfi að annast um þetta eftirlit.

Ég vona nú að það beri ekki að skilja þennan langa tíma sem liðinn er frá því að þáverandi utanríkisráðherra undirritaði bókunina sem einhverja tregðu. Ýmsu er borið við í þessum efnum og maður hefur skilning á sumu eins og því að það tekur tíma að þýða gríðarlanga og mikla samninga ef slíkt á við. Það er ekki í þessu tilviki, þetta er ekki mjög mikill pappír. Málið er tiltölulega einfalt að allri gerð. Þetta er bókun, viðbót við þegar fullgiltan samning af okkar hálfu. Ég vona að gerð verði gangskör að því að þetta gangi eftir, að við fáum þá frumvarp hér inn á þingið á hausti komanda sem feli í sér nauðsynlegar lagatillögur á nauðsynlegum lagastoðum til þess að þetta gangi eftir. Ég mun fyrir mitt leyti fylgjast með því að svo verði.