135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

502. mál
[12:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Mál það sem ég ætla að inna hæstv. menntamálaráðherra eftir tengist mjög mikilvægum hagsmunum menntakerfis okkar en þannig hefur verið nú um nokkurra ára skeið að nemendur á framhaldsskólastigi sem vilja stunda nám í tónlistarskólum eru raunverulega bundnir átthagafjötrum þar sem ríkið hefur vísað tónlistarnáminu alfarið yfir á sveitarfélögin en sveitarfélögin hafa síðan, til að gæta hvert að hagsmunum þegna sinna, takmarkað mjög möguleika utansveitarnemenda að tónlistarnámi. Þetta á við bæði um landsbyggðarfólk sem hefur komið til Reykjavíkur til náms. Þetta á líka við víða úti á landi. Ég þekki það í heimabæ mínum, Selfossi, að þeim fjölbrautaskólanemendum sem eiga lögheimili utan Suðurlands og þar af leiðandi utan umdæmissvæðis Tónlistarskóla Árnesinga hefur verið synjað um að sækja nám nema að greiða full skólagjöld sem ekki er á færi fólks með venjulegan fjárhag.

Það hafa vissulega verið dæmi þess að heimasveitarfélög hafa fengist til þess að greiða þennan kostnað fyrir nemendur og borga þá beint til tónlistarskólanna en hin dæmin eru mjög mörg og kannski fleiri þar sem sveitarfélögin hafa neitað því og þá einmitt á þeim forsendum að það er ekki samkomulag um þessi mál milli sveitarfélaga og ríkis. Það hafa verið starfandi nefndir en mér þykir úrræðaleysið í þessum efnum mjög mikið því að öflugt og gott tónlistarnám er okkur afar mikilvægt og sjálfur fylgdist ég með því eins og aðrir landsmenn þegar hæstv. menntamálaráðherra veitti tónlistarverðlaun á miðjum vetri og var stoltur af þeirri athöfn en stolt okkar yfir tónlistarmönnum verður auðvitað að haldast í hendur við það hvernig við stöndum við bakið á menntun þeirra. Okkar langfrægustu menn á erlendri grundu eru einmitt tónlistarmenn og tónlistin er fullkomlega þess verð að henni sé sinnt ekki síður en öðrum menntasviðum og raunar er þessi afstaða ríkisvaldsins, afstaða menntamálaráðuneytisins til listnáms, því ég hygg að þetta komi líka við annað listnám í landinu, að mínu viti forkastanleg. En ég kalla eftir því hvað sé að gerast í þessum málum hjá hæstv. menntamálaráðherra og hvort ekki sé von á því að hún beiti sér fyrir að þessum átthagafjötrum tónlistarnemenda verði aflétt.