135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

áskoranir frá Bandalagi íslenskra listamanna.

509. mál
[13:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn í þremur liðum varðandi áskoranir frá Bandalagi íslenskra listamanna.

Á aðalfundi bandalagsins þann 16. febrúar ályktaði bandalagið um þrjú meginatriði í stefnu sinni. Í fyrsta lagi varðandi menningarstefnu. Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna óskar eftir því að menntamálaráðuneytið móti og gefi út menningarstefnu til fjögurra ára í senn, sambærilegt við það sem gert er í Noregi. Í næstu grannaríkjum okkar er menningarstefna af ýmsu tagi. Norðmenn hafa fylgt slíkri til fjögurra ára, Danir til tíu ára og Svíar held ég til tíu og jafnvel tuttugu ára. Sinn er siður í landi hverju hvað þetta varðar. En menningarstefna er samþykkt hjá ríkisstjórnum nágrannaríkja okkar. Ég tek undir þá áskorun Bandalags íslenskra listamanna að slíkt þyrfti einnig að vera við lýði á Íslandi.

Í hugmyndum Bandalags íslenskra listamanna er getið um að slík stefna yrði að vera unnin í samvinnu við listamenn þar sem tekið væri á uppbyggingu og framþróun menningar og lista á Íslandi. Í öðru lagi ályktaði Bandalag íslenskra listamanna um tekjur af skattprósentu vegna tekna af hugverkum. Þar eru menn á því spori að óska eftir því að stjórnvöld viðurkenni hugverk sem eign og þau lúti sömu lögmálum og aðrar eignir þegar lagður er á þær skattur. Hugsunin er sú að listamenn fái tekjur sem aðrir launamenn þegar þeir semja eða skapa viðkomandi verk, hvort sem það er leikrit fyrir leikhús eða rithöfundur skrifar bók fyrir útgefanda og þar fram eftir götum. En ef rithöfundurinn eða listamaðurinn hefur síðar á ævinni tekjur af sama verki verði þær tekjur skattlagðar eins og eignatekjur, þ.e. með 10% skattprósentu, ekki sambærilegri og ef væri um launatekjur að ræða.

Í þriðja lagi er getið í ályktuninni um starfslaun listamanna. Bandalag íslenskra listamanna leggur áherslu á það lögum um starfslaun verði breytt. Bandalagið telur að það þurfi að fjölga verulega þeim mánuðum sem nú er gengið út frá. Nú greiða launasjóðir listamanna um 1.200 mánuði, ef ég fer með rétt. Það samsvarar svona 288 millj. kr. á ári. Bandalagið óskar eftir talsverðri hækkun á því framlagi og telur að það megi að ósekju hækka um 300 millj. kr., þ.e. um helming.

Nú spyr ég hæstv. menntamálaráðherra: Hvernig hyggst hún bregðast við þessum áskorunum Bandalags íslenskra listamanna?