135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög of í lagt að segja að við séum með þessu frumvarpi landbúnaðarráðherra og með þeirri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem á bak við liggur að taka upp alla landbúnaðarlöggjöf ESB nema styrkjakerfið, það held ég að sé nú ekki. Þetta er fyrst og fremst sá matvæla- og heilbrigðisþáttur sem við vorum undanþegin og fengum undanþágu frá í byrjun og tókum síðan upp gagnvart fiskafurðum nokkrum árum síðar. Núna verður það þá tekið upp gagnvart búvörum eða öðrum matvælum. Landbúnaðarbatterí ESB er að öðru leyti viðamikið eins og kunnugt er og tekur yfir helming af evrópsku fjárlögunum og snýst um fleira en styrki.

Ég held að þetta sé hins vegar stórt og vandasamt mál sem þurfi að gera allt sem hægt er til að innleiða hér ef ekki verður annar kostur þannig að ekki sé tekin óþarfa áhætta gagnvart sjúkdómavörnum og heilbrigði búfjárstofna og manna. Sömuleiðis þarf að huga að því hvaða áhrif þetta hefur á dýralæknaþjónustu og þá ekki síður hina almennu þjónustu sem stokka á upp í tengslum við þetta mál. Af því hefur ræðumaður nokkrar áhyggjur að það verði ekki til að styrkja hana og eins er það að kostnaður verður umtalsverður samfara þessu. Þetta mál er komið á borð þingmanna og hvernig sem hæstv. landbúnaðarráðherra talar um það hér eða annars staðar þá þarf þingið að vanda sig að sínu leyti og skoða það vel. Það þarf að nýta þá eftir því sem þarf þann aðlögunartíma sem við enn höfum inn á árið 2009 til að vanda þessa framkvæmd eins og kostur er. Það tókst ekki að öllu leyti nógu hönduglega til þegar þetta var fellt niður gagnvart fiskafurðunum. Það olli ýmsum fyrirtækjum umtalsverðu óhagræði, fyrirkomulag landamærastöðva og annað í þeim dúr og það verður að reyna að tryggja að í þessu tilviki takist betur til.