135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er eftirtektarvert að hér skuli fara fram efnisumræða um lagafrumvarp nokkrum dögum eftir að mælt hefur verið fyrir því í þingsalnum og engu líkara en að efni þessa stóra og mikilvæga máls hafi að mestu leyti farið fram hjá sumum félögum okkar í stjórnarandstöðunni a.m.k. Ég held að það sé full ástæða til að taka undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það var ánægjulegt að heyra landbúnaðarráðherra tjá sig um málið í Valhöll á laugardaginn. Þó að hér sé spurt um stefnu Sjálfstæðisflokksins þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að við í Samfylkingunni getum lýst mikilli ánægju með þær áherslur sem þar voru lagðar. Það er engum blöðum um það að fletta að hér er að verið að afnema ákveðnar viðskiptahindranir sem er mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur til lengri tíma þó að auðvitað séu tollarnir og vörugjöldin enn til staðar. Það gerir það að verkum að allur innflutningur verður lengi enn talsvert hindraður og innlendur landbúnaður þess vegna verndaður með þeim áhrifum sem það hefur á framfærslukostnað heimilanna. Það hlýtur auðvitað að vera eitthvað sem við þurfum að ræða í þinginu á næstu mánuðum og missirum. Það er með hvaða hætti við tollum síðan þetta innflutta kjöt, ekki síst hvíta kjötið, kjúklinga og svín, þar sem í raun og veru er um iðnaðarframleiðslu að ræða en ekki hefðbundinn landbúnað í þeim skilningi. (Gripið fram í: Lifi gamli Alþýðuflokkurinn.) Fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, fyrst hann er að kalla fram í, get ég hins vegar staðfest að fram kom hjá embættismönnum landbúnaðarráðuneytisins á fundi landbúnaðarnefndar í morgun að með þessu væri nær allur landbúnaðarréttur Evrópusambandsins innleiddur á Íslandi nema styrkjakerfið, eins og fram kom hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrr í umræðunni. Ég tel að mikilvægt sé að við ljúkum umfjöllun um þetta á þessu þingi (Forseti hringir.) og að við drögum ekki gildistökuna fram á næsta ár, a.m.k. ekki þann þátt sem snýr að þeim farþegum sem koma til landsins og fá heimildir (Forseti hringir.) til að flytja með sér þrjú kíló af kjöti hingað. Ég hef áhyggjur af því að sú umfjöllun sem verður um lögin núna gæti valdið misskilningi, að fólk telji að þau hafi tekið gildi (Forseti hringir.) og fari að taka með sér kjöt til landsins.