135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er talsmaður þess að við eigum að varðveita fram í rauðan dauðann þá einangrun sem við búum við hvað varðar matvælaöryggi eða sjúkdóma. Mér finnst ekki rétt það sem hv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna leggur til að blanda innflutningi eða útflutningi fiskafurða okkar inn á evrópska markaði við þetta því að ég tel að það sé verulegur akkur að því fyrir evrópsk yfirvöld að geta boðið íslenskan fisk á mörkuðum sínum. Það er í sjálfu sér skrefið sem við ættum að stíga í þessum efnum, að tryggja þennan markað og aðgang að honum. Til að markaðurinn sé sem óheftastur ættum við að fara út í vottun á sjávarafurðum okkar þannig að þá þurfi engar sérstakar skoðanir á einhverjum landamærastöðvum, fiskurinn væri vottaður frá okkur. Evrópusambandinu er akkur að því að geta boðið okkar fisk á sem sanngjörnustu verði til evrópskra neytenda. Það vitum við og við eigum að hafa fulla trú á því og ekki blanda því saman til að fá óheftan aðgang inn á evrópska markaðinn með fiskafurðir okkar. Þá þurfum við að opna markaði okkar fyrir ferskum kjötafurðum sem eru nánast iðnaðarframleiðsla í Evrópu eins og hvíta fuglakjötið og hvíta kjötið. Ég held að það sé ekki rétt í þessari umræðu að hafa vantrú á fiskafurðum okkar. Við eigum að votta þær og tryggja að þær hafi óheftan og greiðan aðgang en ekki að aðgöngumiði fyrir það sé falinn í innflutningi hingað á fersku kjöti frá Evrópu.