135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:49]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þingmaður kláraði ekki spurninguna fyrr en hann var kominn úr ræðustól var hún sú hvort ég héldi að það væri stuðningur við þetta mál í ríkisstjórninni. Ég veit að verið er að fjalla um þetta mál hjá ríkisstjórnarflokkunum og ég get glatt hv. þingmann með því að ég held að það sé ágætissamstarf fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra um þetta mál þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því.

Umfjöllunarefnið er sem sagt til meðferðar hjá stjórnarflokkunum og ég á ekki von á öðru en að þaðan komi mjög skynsamlegar tillögur eins og ávallt koma frá þessum stjórnarflokkum þegar þeir fjalla um mál. Ég á ekki von á öðru en að það verði í þessu tilfelli eins og alltaf áður, þ.e. að við fáum lausn á þessum málum sem verða þá til þess að þarna gangi mál upp hvað varðar löggæslu, tollgæslu og flugvernd á Keflavíkurflugvelli.