135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:50]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þegar sú ákvörðun var tekin að sameina löggæslumál á Suðurnesjum og stofna embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum var sveitarstjórnarmönnum á svæðinu kynnt sú breyting á þann veg að hún mundi leiða til þess að styrkja og efla löggæsluna á Suðurnesjum auk þess sem sami fjöldi lögreglumanna mundi starfa við embættið.

Síðan hefur það gerst að lögreglumönnum hefur fækkað frá sameiningu. Það er skoðun sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum að lögreglan þurfi að vera sýnilegri, grenndargæsla sé ekki nægileg og að viðbragðstími sé of langur. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum hafa áhyggjur af öryggi íbúa Suðurnesja og vilja að þau loforð sem gefin voru við sameiningu um öflugri löggæslu verði efnd, að rekstrargrunnur löggæslunnar verði styrktur svo hægt verði að fullmanna lögregluliðið að nýju.

Öryggisgæslan snýst um starfsemina í flugstöðinni og það gerir tollgæslan einnig að mestu leyti. Löggæslan snýst um landamæragæslu og einnig um samfélagið á svæðinu og það þarf að efla hana í þágu allra íbúa á Suðurnesjum. Þær breytingar sem boðaðar eru á embætti lögreglustjórans eiga ekki að vera til þess fallnar að veikja starfsemina á neinu sviði, (Gripið fram í.) hvorki tollgæslu, öryggisgæslu né löggæslu heldur tryggja starfsöryggi aðila og að verkefnum sem þessir aðilar hafa haft með höndum verði áfram sinnt vel.

Með mikilli fjölgun farþega um flugvöllinn og með mikilli aukningu fraktsendinga hafa umsvifin í kringum flugstarfsemina aukist mjög. Það er skoðun mín að með nýju fyrirkomulagi eigi að skapast tækifæri til að efla og styrkja löggæsluna á svæðinu á forsendum löggæslunnar. Það er stærsti vinningurinn fyrir ört stækkandi samfélag á Suðurnesjum.