135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða eitt allra skrýtnasta mál sem rekið hefur á fjörur þingsins á undanförnum árum. Það er nýlega búið að hrinda í framkvæmd breytingum á embættunum á Suðurnesjum og sameina tollverði, öryggisþjónustu og löggæslu undir eina yfirstjórn með það að markmiði að ná fram fjárhagslegum sparnaði, meiri samhæfingu milli þessara starfsstétta og meiri árangri í starfi þeirra. Nú á að fara að snúa til baka, rífa þetta í sundur aftur — með sömu rökum. Hér kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurnesjum og segir að í þessu felist ný tækifæri. Tækifæri til hvers? Til þess að henda út um gluggann þeim fjárhagslega sparnaði sem náðst hefur með þessari sameiningu? (Gripið fram í: Sinna löggæslu.) Tækifæri til þess að eyðileggja það samstarf milli lögregluþjóna og tollvarða sem tekist hefur vegna þess að þeir eru undir sama embætti, geta unnið saman með mismunandi lögheimildir til sinna starfa? (Gripið fram í.) Það eru engin tækifæri í þessu.

Þetta eru tækifæri til að eyðileggja gott verk, og ég er undrandi á að það sjónarmið skuli heyrast frá Sjálfstæðisflokknum, og það frá þingmanni kjördæmisins, að þetta skemmdarstarf sé tækifæri.

Virðulegi forseti. Það verður að gera kröfu til þess að flokkur dómsmálaráðherrans rökstyðji það og segi okkur frá því hvaða tækifæri það eru. Er það kannski tækifæri til þess að fá annan sýslumann, einhvern sem er með betra flokksskírteini en þann sem fyrir er, virðulegi forseti? (ArnbS: Hvaða flokksskírteini hefur þessi?) Hvers konar tækifæri er það sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að sækja sér með því að henda sprengju inn í gott starf sem unnið hefur verið á sl. einu og hálfa ári og reyna að eyðileggja það í einu vetfangi, virðulegi forseti?

Ég segi eins og formaður þingflokks Samfylkingarinnar: Hvers vegna að gera við það sem ekki (Forseti hringir.) er bilað?