135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:57]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er þeim sem hér stendur mikið mál að tala í þessum þjóðlendumálum, ég skal alveg viðurkenna það, fús og viljugur. Mér hefur frá upphafi þótt þetta mál hafa verið rekið þannig að það væri mikil óbilgirni af hálfu ríkisins í eftirrekstri og ásælni í lönd vítt um Ísland. Ég hef verið þeirrar skoðunar og aldrei dregið dul á það. Mér er hins vegar fullkomlega ljóst að það er ríkur þingmeirihluti fyrir þeirri lagasetningu sem kröfugerðin byggir á. Framkvæmd kröfugerðarinnar hefur hins vegar tekið breytingum eins og kom ágætlega fram í máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar áðan. Í þessu síðasta máli, þó svo að skíðasvæði okkar norðanmanna uppi í Hlíðarfjalli falli að þjóðlendukröfunni að þessu sinni, hef ég fulla trú á því að við megum halda áfram upp fyrir þriðja mastur í Strýtu í Hlíðarfjalli og býð hv. þingmann velkominn á skíði með mér þar við fyrsta tækifæri.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á kröfugerðinni komu ágætlega fram í yfirlýsingu frá fjármálaráðherra sem birt var í Morgunblaðinu 8. apríl sl. og væntanlega í öðrum fjölmiðlum. Kröfugerðin tekur mið af niðurstöðu óbyggðanefndar og dómstóla undanfarin missiri. Það er stuðst við þinglýst landamerki sem ekki hefur verið gert áður nema þar sem þau ná inn til jökla. Þar liggja fyrir dómafordæmi frá Hæstarétti sem kröfugerðin getur ekki sniðgengið og verður að fá þá skorið úr með nýjum dómi.

Að öllu samanlögðu get ég litið svo á, og lít svo á, að kröfugerðin sé miklu afmarkaðri en hún áður var. (BjH: Hvar er sáttaleiðin?) Það er ekki leyst. Menn ganga þennan veg til enda á grundvelli þeirra laga sem hv. Alþingi setti.