135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[14:01]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Öll loforð sem gefin voru vegna sameiningar embættanna fyrir 16 mánuðum hafa verið svikin. Á síðustu þremur árum hefur fækkað um 18 til 20 löggæslumenn á Suðurnesjum. Sex lögreglubílar áttu að vera á Suðurnesjum. Því var lofað þegar lögreglustöðin var lögð niður í Grindavík og lögreglan sameinuð. Það áttu að vera sex bílar í gangi, einn í Sandgerði og Garði, einn í Grindavík og Vogum, tveir í Reykjanesbæ, sá fimmti við flugstöðina og loks áttu sérsveitarmenn að vera í sjötta bílnum. Ekki hefur verið staðið við neitt af þessu. Búið er að rústa þann mikla árangur sem lögregla, tollverðir og öryggisverðir höfðu náð á Keflavíkurflugvelli. Samstarf þessara aðila hefur verið frábært vegna þess að þeir hafa verið undir einni stjórn en ekki rifist um hver ætti að borga kostnaðinn af hverju embætti fyrir sig, með yfirstjórn yfir þremur embættum og jafnvel því fjórða því að það hefur heyrst að ríkislögreglustjóri vilji taka yfir svokallaða landamæravörslu. Þetta er allt á floti, þetta er allt í lausu lofti og enginn veit hvað verið er að gera þarna. Fólkið, bæði starfsmenn og almenningur á Suðurnesjum, er í mikilli óvissu út af þessum gerræðislegu vinnubrögðum og valdhroka ákveðinna ráðherra yfir því hvernig þeir standa sig. Það er hægt að spara með því að leggja niður Schengen og vera bara hálfur aðili að Schengen-samkomulagi. En númer eitt, tvö og þrjú vantar peninga í löggæslumál á Suðurnesjum. (Gripið fram í: Á landinu.) Á landinu reyndar, það er líka rétt. En númer eitt þarf að koma í veg fyrir að þessar breytingar verði gerðar á lögregluembættinu á Keflavíkurflugvelli.