135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu.

567. mál
[14:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Dreifmenntaverkefni í Vestur-Barðastrandarsýslu var verkefni um nýtingu á upplýsingatækni og samvinnu grunnskóla í Vesturbyggð og Tálknafirði. Framkvæmd þess verkefnis stóð yfir á árunum 2003–2006 og meginmarkmið þess var að nýta upplýsingatækni í þágu fræðslustarfs í grunnskólum sveitarfélaganna svo það mætti eflast og styrkja stöðu byggðanna. Lögð var áhersla á að þróa samkennslu og efla samstarf milli skóla á svæðinu og auka og bæta gæði náms og fjölbreytni.

Að loknu skólaári 2006 var Háskólinn á Akureyri fenginn til þess að taka út verkefnið og voru helstu niðurstöður úttektar þær að umtalsverður ávinningur hefði orðið af dreifmenntaverkefninu, m.a. sá að kennsluaðferðir í skólunum hafi orðið fjölbreyttari og samskipti kennara á svæðinu aukist. Með aukinni samkennslu á milli skólanna virðist mega draga úr fjölda kennslustunda á svæðinu með samnýtingu kennara og að nemendur séu sjálfstæðari í námi og betur undirbúnir fyrir framhaldsnám í fjarnámi en nemendur sem hafa eingöngu fengið hefðbundna kennslu. Félagsleg tengsl nemenda á svæðinu sem verkefnið náði til hafa aukist með því að nemendur upplifi sig sem þátttakendur af stærri heild.

Það hefur verið mat þeirra sem að þessu verkefni stóðu að því þyrfti að fylgja eftir með einhverjum hætti, bæði til að þróa enn betur þær kennsluaðferðir sem notaðar voru og þær hugmyndir sem upp komu, til að styrkja enn frekar nám og námsframboð bæði innan svæðis og utan. Meðal annars með hliðsjón af þessu, virðulegi forseti, spyr ég hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur:

1. Hvernig tókst til með dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu sem lauk árið 2006 og hver er staða verkefnisins nú?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir framhaldi verkefnisins og þá hvernig? Ef svo er, hvernig verður verkefninu tryggt nægilegt fé svo að það geti staðið undir væntingum?