135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu.

567. mál
[14:07]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem tengist dreifmenntaverkefni í grunnskólum. Ég ætla að fara aðeins inn á það síðar hvernig það hefur síðan tengst framhaldsskóladeildinni á Patreksfirði sem fór af stað á síðasta ári.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður: „Hvernig tókst til með dreifmenntaverkefni í grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu sem lauk árið 2006 og hver er staða verkefnisins nú?“

Með dreifmenntun er átt við blöndu af staðbundnu námi og fjarnámi þar sem upplýsingatækni er nýtt til kennslu, nýtt til samskipta og miðlunar námsefnis óháð stað og stund. Umrætt verkefni fólst í því að kennt var á milli grunnskóla í Vesturbyggð og Tálknafirði sem eru alls á fjórum stöðum. Niðurstaða ytra mats Háskólans á Akureyri á verkefninu eins og fram hefur komið var sú að umtalsverður ávinningur hefði orðið af því og er mælt með því að verkefninu verði haldið áfram. Dreifmenntun í grunnskólum á þessu svæði hefur að mestu legið niðri eftir að verkefninu lauk formlega árið 2006.

Í öðru lagi er spurt: Hyggst ráðherra beita sér fyrir framhaldi verkefnisins og þá hvernig? Ef svo er, hvernig verður verkefninu tryggt nægilegt fé svo að það geti staðið undir væntingum?

Sveitarstjórnir í Vesturbyggð og Tálknafirði og skólastjórnendur á þessu svæði hafa lýst yfir áhuga sínum á að halda verkefninu áfram og hefur ráðuneytið átt í viðræðum við þá og Samband íslenskra sveitarfélaga um nýtt verkefni. Stofnaður hefur verið undirbúningshópur með fulltrúum þessara aðila og einnig hefur Kennaraháskóli Íslands verið fenginn til að vinna að undirbúningi nýs verkefnis. Nýlega hafa forsvarsmenn grunnskóla, sveitarstjórnarmenn á norðanverðu Snæfellsnesi ásamt Fjölbrautaskóla Snæfellinga lýst yfir áhuga á að taka þátt í nýju dreifmenntaverkefni með grunnskólum Vestur-Barðastrandarsýslu. Er gert ráð fyrir því að verkefnið hefjist nú í haust og verði á forræði viðkomandi sveitarfélaga með stuðningi menntamálaráðuneytisins en við fjármögnun verkefnisins verði leitað til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sjóða vega byggðamála sem og mótvægisaðgerða auk þess sem gert er ráð fyrir því að menntamálaráðuneytið styðji verkefnið fjárhagslega.

Því er við að bæta — til að undirstrika mikilvægi þess og líka til að því verði haldið áfram — að á grundvelli dreifmenntaverkefnisins og góðs árangurs af því er hægt að byggja á þeirri reynslu og þekkingu í framhaldsdeildarverkefninu á Patreksfirði í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga sem vonandi mun gefa góða raun og líklega verða fyrirmynd fyrir önnur svæði sem það í rauninni er orðið. Ég vil nefna Þórshöfn, en Þórshafnarmenn hafa litið til Vestfirðinga hvað þetta varðar til að efla og auka aðgengi heimamanna að framhaldsskólanámi. Það er mikilvægt að það verkefni takist vel til eins og í rauninni dreifmenntaverkefnið gerði á sínum tíma. Ég ítreka að það er mikilvægt að breið samstaða verði um þetta verkefni þannig að sveitarstjórnirnar komi að því, menntamálaráðuneytið og Kennaraháskólinn eða væntanlega Háskóli Íslands eftir sameiningu háskólanna í sumar.

Ég ítreka stuðning minn við þetta verkefni. Það þarf að tryggja fjármagn og ég bind miklar vonir við hægt verði að gera það í gegnum þær leiðir sem ég nefndi, í gegnum mótvægisaðgerðir en líka í gegnum framhaldsskóla, liði sem við höfum í menntamálaráðuneytinu, og m.a. í tengslum við breytt lög um framhaldsskóla. En nýtt framhaldsskólafrumvarp, sem verður vonandi að lögum í vor, mun einmitt hjálpa til við það að hægt sé að tengja slík verkefni á milli skólastiga, þ.e. grunnskóla og framhaldsskóla, og að þau geti unnið vel áfram á þessu sviði. Og fyrir fámennari sveitarfélög á landinu munu þær breytingar sem hv. menntamálanefnd er að ræða stuðla að því að menntun og menntunarmöguleikar, tækifæri á landsbyggðinni, munu aukast að breyttum lögum.