135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

Ísafjarðarflugvöllur.

383. mál
[14:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að þetta voru það miklar upplýsingar á skömmum tíma að ég er í svolitlum erfiðleikum með að meta þetta allt saman sem kom fram hjá hæstv. ráðherra. Engu að síður er mjög mikilvægt að það skyldi koma fram og skiptir máli upp á framtíðarvinnu í þessu. Miðað við það sem kom fram fannst mér tónninn vera sá að líkur væru á að þarna yrði bætt úr að einhverju leyti þó enginn sé að tala um að fara alla leið og fara upp í það að vera þarna með sambærilegan völl við bestu velli á landinu. Við vitum að landslagið setur okkur skorður hvað það varðar.

En það var líka gott að heyra að búið er að gefa út leyfi sem varðar Flugfélag Íslands og flug þess félags til Grænlands því ég held og trúi því að það sé starfsemi sem geti haldið áfram að þróast og eigi endilega að halda áfram að þróast, geti skipt okkur máli og geti líka orðið mjög mikilvægt fyrir Grænlendinga.

Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þessi svör og trúi því að hann muni halda áfram að beita sér í þessu máli þannig að það verði Vestfirðingum til framdráttar.