135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

Ísafjarðarflugvöllur.

383. mál
[14:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði. Svarið var stórt og ítarlegt enda spurningin mikilvæg, um millilandaflug á Ísafjarðarflugvelli. Þess vegna var þetta dálítið ítarlegt svar þó ég hafi lent í smátímakreppu með það. En ég vona að það hafi komist til skila.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og þá líka af því að ég get sagt frá því á Alþingi að þetta flug sem hér er rætt um, þ.e. Grænlandsflug Flugfélags Íslands, að búið sé að tryggja að það geti verið áfram þetta sumar alla vega eins og undanfarin sumur. Þetta höfum við tilkynnt Flugfélagi Íslands þannig að þeir hafa getað gert viðeigandi ráðstafanir hvað starfsemi þeirra varðar í sumar. Eins og við vitum sem þekkjum til aðstæðna á Ísafirði þá lagði bæjarstjórn Ísafjarðar, Fjórðungssamband Vestfirðinga og fleiri mikla áherslu á þetta og það hefur verið unnið af fullum krafti í samgönguráðuneytinu og stofnunum þess við að fá þessa undanþágu eða það sem leiddi til þessarar tilkynningar um að Flugfélag Íslands geti haldið þessu flugi áfram.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn.