135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

margfeldisáhrif sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum.

505. mál
[14:31]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Ég er sammála því sem fram kom í máli hennar að mjög margt af því sem snýr að mikilvægi sjávarútvegsins blasir kannski ekki við okkur í þeirri hagtölugerð sem við eigum auðveldastan aðgang að. Sjávarútvegurinn er margslungin atvinnugrein sem kemur víða við, eins og hv. þingmaður rakti, og þýðing hans er mun meiri en virðist við fyrstu sýn. Alveg sérstaklega, eins og hv. þm. vakti athygli á, er þýðing hans gríðarlega mikilvæg og hlutfallslega mikilvægari úti um landið. Sjávarútvegurinn er sem betur fer atvinnugrein landsbyggðarinnar. Þar er langstærsti hluti aflaheimildanna og þannig verður atvinnusköpunin svo mikil þar. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur verið að breytast mjög mikið. Hann er smám saman að verða æ tæknivæddari og það hefur margvísleg áhrif. Það hefur gefið okkur tækifæri til að auka verðmætasköpunina í greininni en það hefur hins vegar líka haft áhrif á atvinnuþátttökuna. Þeim fækkar sem vinna beinlínis við sjávarútveg en það þýðir ekki að sjávarútvegurinn skapi ekki jafnmikil eða meiri verðmæti en áður. Það er einfaldlega vegna þess að greinin hefur verið að tæknivæðast og er orðin fullkomnari sem okkur tekst að skapa meiri verðmæti úr jafnmiklu eða minna hráefni en áður.

Eins og hv. þingmaður vakti athygli á vantar heilmikið á þessa mynd til að við getum gert okkur grein fyrir þessu. Við höfum til staðar útreikninga frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands frá árinu 2005 sem gefa til kynna það sem menn hafa kallað skammtímamargfaldara í framleiðslu bæði í landbúnaði og sjávarútvegi eða fiskveiðum, að hann sé um það bil 2,5 og starfamargfaldari vegna sömu greinar sé til skamms tíma litið 2,7. Þetta þýðir að ef framleiðsla í fiskveiðum eða landbúnaði eykst um eina krónu má gera ráð fyrir því að heildarframleiðslan í hagkerfinu, að fiskveiðum og landbúnaði meðtöldum, aukist um 2,50 þegar til skamms tíma er litið. Jafnframt má segja að 1,7 störf tengd annars staðar í hagkerfinu tengist hverju starfi í fiskveiðum þegar horft er til skemmri tíma.

Eins og ég vék að hefur athugun á þessum margfeldisáhrifum í sjávarútvegi í heild fyrir þjóðarbúskapinn því miður ekki farið fram á vegum opinberra aðila, a.m.k. ekki svo mér sé kunnugt. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að reyna að varpa ljósi á þetta mál af ýmsum ástæðum og hef því í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns falið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að láta skoða þessa spurningu, annars vegar miðað við skammtímaáhrif og hins vegar miðað við langtímaáhrif. Þetta er einkanlega mikilvægt nú í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið í umhverfi atvinnulífsins almennt. Það eru að verða til aðrar atvinnugreinar, atvinnulífið er að breytast gríðarlega mikið en þrátt fyrir það höfum við þessa öflugu atvinnugrein, sjávarútveginn, sem skiptir þetta miklu máli fyrir okkur hvað varðar þjóðarbúskapinn og hefur mikil áhrif á þróun lífskjara í landinu.

Á síðustu árum hefur mér stundum fundist að vitneskja um mikilvægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum hafi vikið til hliðar. Við höfum orðið vör við það, til að mynda þegar sem best gekk í fjármálageiranum og í öðrum atvinnugreinum, að menn reyndu að gera lítið úr þýðingu sjávarútvegsins. Sú umræða hefur að mínu mati ekki alltaf verið mjög sanngjörn. Engu að síður er staðreyndin sú að sjávarútvegurinn skilaði 6,7% af landsframleiðslunni árið 2006 en við sjávarútveginn unnu hins vegar einungis 5% af vinnuaflinu eða um 8.400 manns. Það er því alveg ljóst mál að þessi störf sem þó eru ekki fleiri en þetta, 8.400 manns, eru gríðarlega verðmæt störf og undirstrika þýðingu greinarinnar auk þeirra margfeldisáhrifa sem hv. þingmaður rakti og ég undirstrikaði.

Þáttur sjávarútvegsins í útflutningsframleiðslunni var hins vegar mjög mikill. Útfluttar sjávarafurðir námu um 51% af heildarverðmæti vöruútflutnings á árinu 2006 og 33,5% af heildarverðmæti útfluttrar vöru og þjónustu. Talið er að innlenda tekjuvirðið í framleiðslunni sé á milli 60 til 70% í sjávarútveginum. Innlenda verðmætasköpunin í greininni er þess vegna mjög mikil og það er alveg ljóst mál t.d. að þessi þáttur er öðruvísi í sjávarútveginum en í ýmsum öðrum atvinnugreinum þar sem innlendi hluti verðmætasköpunarinnar er oft og tíðum minni. Það er kannski það sem hefur hvað mest áhrif á þennan margfeldisþátt sem hv. þingmaður var að leita eftir svörum við. Einnig verður að hafa í huga, sem hv. þingmaður nefndi, og ég kom að líka, að sjávarútvegurinn vegur mjög þungt á einstökum svæðum.

Aðalatriðið er þetta: Okkur vantar upplýsingar um heildarmargfeldisáhrif greinarinnar og ég vonast til þess að hægt verði að upplýsa hv. þingmenn og Alþingi um niðurstöður þeirrar vinnu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er nú farin af stað með fyrir þinglok.