135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

margfeldisáhrif sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum.

505. mál
[14:37]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með það sem hér hefur komið fram og ánægju með það að fyrirspurnin skuli hafa verið borin fram. Hún hefur orðið til þess, eins og hæstv. ráðherra greindi frá, að Hagfræðistofnun mun fara í þessa vinnu, reyna að finna út hver margfeldisáhrif sjávarútvegsins eru í þjóðarbúskapnum.

Sjávarútvegurinn er okkur ákaflega mikilvægur. Þó að við getum gleymt okkur dag og dag yfir því að vel gangi annars staðar, sem vissulega er jákvætt, er hann ein grundvallarástæða þess að við höfum komist upp ýmsar brekkur í þjóðlífinu og efnahagslífinu á síðustu áratugum. Störfum hefur að vísu fækkað og ekki síst út af því að tæknivæðingin hefur verið mikil. En mér finnst gott að heyra að þessi vinna skuli vera að hefjast.