135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

margfeldisáhrif sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum.

505. mál
[14:40]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst standa upp til að þakka góðar undirtektir við þetta mál. Ég tek undir það sem bæði hv. Arnbjörg Sveinsdóttir og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sögðu um þýðingu þess að þessi vinna verði unnin. Það skiptir líka miklu máli fyrir okkur á þessum miklu breytingartímum að við gerum okkur grein fyrir þýðingu atvinnugreinarinnar. Við höfum séð það upp á síðkastið þegar slegið hefur í bakseglin á ýmsum sviðum að það er sjávarútvegurinn sem reynist vera þessi mikli burðarás og dráttarklár fyrir efnahagslegar framfarir í landinu. Sú staðreynd að við erum með öflugan sjávarútveg sem er alvöruatvinnugrein hefur haft mikla þýðingu.

Það hefur gert það að verkum, eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir vakti athygli á, að sjávarútvegurinn hefur leitað eftir tæknilegum lausnum á ýmsum verkefnum sem hann hefur verið að fást við. Það hefur skapað forsendur fyrir fyrirtæki á borð við Marel, 3X-Stál, Skagann o.fl. sem hafa verið að vinna að lausnum fyrir sjávarútveginn sem síðan hefur verið hægt að flytja út og selja sem þekkingu og framleiðslu frá okkur til annarra landa. Það er líka athyglisvert að lausnir sem hafa orðið til sem lausnir á verkefnum eða viðfangsefni í sjávarútvegi hafa orðið grundvöllur að lausnum fyrir aðra matvælaframleiðslu. Sjávarútvegurinn okkar er ekki bara í fremstu röð hvað sjávarútveg varðar heldur líka þegar kemur að samanburði við ýmsa aðra atvinnustarfsemi á matvælasviðinu.

Við sjáum vonandi með þeirri athugun sem hafist hefur verið handa við hver raunveruleg þýðing sjávarútvegsins er og hver margfeldisáhrifin eru af sjávarútveginum í þjóðfélaginu. Vonandi, og ég hef lagt á það áherslu, tekst okkur að varpa þeim upplýsingum fram áður en þingi lýkur nú á vordögum.