135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

nýr Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss.

437. mál
[14:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Fyrirspurn þá sem hér er tekin fyrir lagði ég upphaflega fram áður en hæstv. samgönguráðherra boðaði til blaðamannafundar þar sem m.a. var tilkynnt um vegabætur milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Ég vil þakka það framtak sérstaklega og hrósa því að það skuli þó vera komið í gang. En sannast sagna höfum við Sunnlendingar verið langeygir eftir vegabótum á þessu svæði og á vegarkaflanum alla leiðina frá Reykjavík austur á Selfoss en sá vegur hefur verið mikill slysakafli enda löngu ofsetinn af þeirri umferð sem þar fer um í dag. Ég þarf því ekki að spyrja sérstaklega um vegarkaflann milli Reykjavíkur og Hveragerðis, því hefur samgönguráðherra svarað á blaðamannafundi og þar kom fram, ég vona að ég fari þar rétt með, að framkvæmdir hefjist að ári og ljúki vorið 2011, svona rétt fyrir næstu kosningar skulum við vona. Okkur sem bíðum eftir vegabótunum finnst þetta reyndar allt taka langan tíma og að við þurfum að bíða lengi frá því að pólitísk samstaða náðist um þessar framkvæmdir.

En mig langar til að spyrja ráðherrann sérstaklega um þann lið spurningarinnar sem snýr að veginum milli Hveragerðis og Selfoss en tilfellið er að þar er ástandið í rauninni enn verra en það er á fjallveginum því á þeim kafla er umferðin að vonum meiri, þar sem það er í byggðinni. Slysakaflarnir og beygjurnar eru líka að mörgu leyti verri þó að þetta sé á láglendi og þess vegna heldur veðursælla.

Sunnlendingar bíða mjög eftir því að framkvæmdir hefjist þar og við höfum enn ekki fengið neinar fréttir af því að þær séu hafnar eða séu að komast í gang, aðeins umræðu milli sveitarfélaga um vegstæðið. En ef það er eins og mér sýnist að sveitarfélögin hafi nú náð þar saman þá er ekki eftir neinu að bíða að vegurinn verði hannaður og settur í umhverfismat.

En ég spyr hæstv. samgönguráðherra hvenær við megum vænta frétta af því og hvenær við megum vænta þess að vegurinn þar á milli verði tilbúinn til aksturs.