135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

nýr Suðurlandsvegur milli Reykjavíkur og Selfoss.

437. mál
[14:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Ég má kannski stilla mig um að fara ekki of bratt í hrósið við hæstv. ráðherra, því það er auðvitað vandmeðfarið að taka hrósi án þess að því fylgi of mikill ofmetnaður. En ég vil að það sé alveg á hreinu að ég hef svo sem ekki lagt neina sérstaka blessun yfir þá forgangsröðun sem hér er höfð við. Ég hef talið líkt og við margir austan fjalls að betra hefði verið að byrja á veginum milli Hveragerðis og Selfoss.

Ég er auk þess í rauninni engu nær um það hvort framkvæmdir við þann veg verði hafnar á þessu kjörtímabili og ég hefði viljað fá svör við því hvort ráðherra telur að sá vegur verði tilbúinn eða a.m.k. hvort framkvæmdir verði vel á veg komnar áður en kjörtímabilinu lýkur. Krafa okkar Sunnlendinga er sú og ég hygg að þetta sé vel framkvæmanlegt.

Ég vil biðja menn að fara hóflega með hrósið og það er góður siður að kunna að taka því. Tilfellið er að það geta margir hrósað sér af þessum vegi og þar á meðal fráfarandi ríkisstjórn. Í raun og veru hefur hæstv. samgönguráðherra ekki gert hér annað en að fylgja eftir ákvörðun sem tekin var á síðasta kjörtímabili en það var auðvitað mjög góð ákvörðun eins og margar ákvarðanir þáverandi ríkisstjórnar.

Varðandi ríkisfjármálin í þessu samhengi þá sé ég ekki alveg samhengið á milli þess og að telja að ég þurfi að skipta um skoðun. Í fyrsta lagi hefur ekki komið fram í svari hæstv. samgönguráðherra að framkvæmdir muni hefjast á þessu ári. Ég var að gagnrýna fjárlög yfirstandandi árs. En nú er verið að gera ráð fyrir að hefja framkvæmdir á næsta ári og ég var að gagnrýna það að ríkið tæki ekki þátt í þeim efnahagsþrengingum sem nú eru með því (Forseti hringir.) gæta aðhalds akkúrat núna meðan þær standa. Það getur vel verið að staðan verði önnur á næsta ári.