135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

Patreksfjarðarflugvöllur.

565. mál
[15:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Uppbygging ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum á mikið undir áætlunarflugi á svæðinu. Þeim ferðamönnum fjölgar sem vilja koma flugleiðis vestur og þar á meðal þeim sem koma í tengslum við ört vaxandi sjóstangaveiði. Flugvellir svæðisins eru tveir, á Patreksfirði og Bíldudal og er Bíldudalsflugvöllur sá völlur sem flogið er á í dag og hefur verið okkar aðalflugvöllur undanfarin ár. Þar er rétt eins kílómetra löng flugbraut og þarf nauðsynlega að lengja hana að lágmarki um 200 metra eða í 1.200 metra braut með tilheyrandi öryggissvæðum. Við það mundi opnast sá möguleiki að lenda á stærri vélum og tryggja þar með meiri hagkvæmni í rekstri.

Ég er ekki í vafa um að þessi aðgerð mundi skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið og samfélagið í heild sinni. Varðandi Bíldudalsflugvöll hefur bæjarstjórn Vesturbyggðar þegar ályktað og skorað á hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir lengingu brautarinnar. En samkvæmt upplýsingum er lengingin ekki komin á flugmálaáætlun og því ekki ljóst hvenær og hvort hafist verður handa, sem að mínu mati ætti að vera eitt af flýtiverkefnum í samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum ef tekið er mið af því loforði sem gefið hefur verið m.a. í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Því vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra út í Patreksfjarðarflugvöll sem einnig skiptir heilmiklu máli fyrir vaxandi ferðaþjónustu ekki síst út á Látrabjarg og svæðið þar í kring. Á þeim tíma sem áætlunarflug var til Patreksfjarðar gátu mun stærri vélar lent þar en mögulegt er nú á Bíldudal og brautin á Patreksfjarðarflugvelli var þá 1.400 metra löng. Breyting á skráningu vallarins var gerð í framhaldi af því að áætlunarflugi var hætt og er hann því nú skráður með 800 metra lendingarstað og 30 metra breiðan. Flugvöllurinn er núna aðeins notaður sem lendingarstaður fyrir einkaflugmenn, tilfallandi leiguflug og sjúkraflug að sögn umdæmisstjóra Flugmálastjórnar á Vestfjörðum sem gaf mér þessar upplýsingar. Í framhaldi af þessu vil ég beina svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hver er þjónustugeta Patreksfjarðarflugvallar og hvernig er viðhaldi og rekstri vallarins háttað?

2. Hvert er mat ráðherra á gildi og vægi Patreksfjarðarflugvallar fyrir svæðið allt og hver eru framtíðaráform stjórnvalda hvað völlinn varðar eða eru þau einhver?