135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

héraðs- og tengivegir í Norðvesturkjördæmi.

566. mál
[15:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Samgöngur eru mér ofarlega í huga enda er ég landsbyggðarmanneskja. Samgöngur eru og verða afar mikilvægur hlekkur í baráttu fyrir bættri búsetu hvar sem er á landinu, hvort sem um er að ræða í lofti, á legi eða láði. Það sem ég vil gera að umræðuefni og er tilefni mitt til að spyrja hæstv. samgönguráðherra eru safn- og tengivegir í Norðvesturkjördæmi. Reyndar á það við um land allt.

Safn- og tengivegir landsins teljast um 6.549 kílómetrar samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar og af þeim eru héraðsvegir eða safnvegir rúmlega 4.000 kílómetrar. Til viðmiðunar má nefna að hringvegurinn er 1.440 kílómetrar. Í Borgarbyggð má ætla að þessir vegir séu 10% af heildinni, eða í kringum 400 kílómetrar og flestir þeirra malarvegir. Malarvegir geta ekki talist góðir er kemur að umferðaröryggi. Einnig eru enn á þeim hættulegar beygjur, einbreiðar brýr og slæm ræsi á of mörgum stöðum.

Með tilliti til þeirra almennu mannréttinda að menn búi við ásættanlegar aðstæður varðandi samgöngur þarf að gera stórátak í að vinna í málaflokknum innan Vegagerðarinnar og með mun skipulegri hætti en verið hefur til þessa. Þetta eru samgönguleiðir sem ótrúlega margir búa við að aka daglega eftir, m.a. með börn í skólabifreiðum alla daga, allt skólaárið. Þungaflutningar fara þar um með aðföng að og frá bændabýlum ásamt því að fjöldi íbúa er búa við þessar aðstæður hefur atvinnu í þéttbýli og í nánasta umhverfi og þarf að aka daglega til og frá vinnu. Í nýju frumvarpi til laga um samgönguáætlun segir m.a. að öryggismál hvers konar hafi fengið aukið vægi á undanförnum árum og rétt sé að fjalla um þau sérstaklega.

Af öryggisástæðum, ekki síst, vil ég beina eftirfarandi spurningu til hæstv. ráðherra: Eru uppi áform um að leggja bundið slitlag á héraðs- og tengivegi? Ef svo er, hve miklum fjármunum hyggst ráðherra veita til þess?

Er til úttekt á því hvaða vegi væri hægt að leggja slitlag á án þess að til verulegrar grunnuppbyggingar þyrfti að koma?