135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

héraðs- og tengivegir í Norðvesturkjördæmi.

566. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin við spurningum mínum og þá umræðu sem farið hefur fram. Ég tek undir orð hv. þm. Árna Johnsens um að málið snúist um æðakerfi landsbyggðarinnar.

Mér finnst það nauðsynlegt, þegar ráðist er í stórframkvæmdir í vegagerð sem útheimta gríðarlega fjármuni, að fastbinda ákveðnar upphæðir til framkvæmda við safn- og tengivegina svo þeir sitji ekki eftir varðandi uppbyggingu. En hæstv. samgönguráðherra tilkynnti hér að aukning hefði verið á framlögum í þann hluta vegakerfisins og við skulum vona að því verði fylgt eftir.

Það er vert að minnast á það, með leyfi forseta, að í vaxtarsamningi Vesturlands er sett fram tillaga um tilraunaverkefni um safn- og tengivegi sem gengur út á að fela sveitarstjórnum að stýra skiptingu fjármagns til viðhalds og nýframkvæmda safn- og tengivega í landshlutanum. Þar skoraði SSV á stjórnvöld að gera samning við áhugasöm sveitarfélög um þetta verkefni. Gaman væri að heyra frá hæstv. samgönguráðherra um hvort um þetta hefði verið fjallað sérstaklega.

Ég beini þeim tilmælum, með leyfi forseta, til hæstv. samgönguráðherra að hann skoði þetta mál sérstaklega og ítreka að í þessum málum þarf að huga að forgangsröðun.