135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Að ætla sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25%–40% fyrir árið 2020 svo að meðaltalshlýnun lofthjúpsins verði innan við tveggja gráðu markið, að öllum líkindum, á þessari öld, er í sjálfu sér gott markmið sem ég lýsi stuðningi við.

Ég vil hins vegar leyfa mér að ítreka fyrri efasemdir mínar um að hugur fylgi máli hjá þessari ríkisstjórn enda ósamræmi á milli yfirlýsinga hæstv. umhverfisráðherra og annarra ráðherra í ríkisstjórninni, meira að segja innan fjögurra manna hópsins sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég heyri ekki betur í máli hæstv. ráðherra núna en að hún taki nú undir sjónarmið t.d. hæstv. iðnaðarráðherra. Hann lýsti sjónarmiðum sínum í grein í Morgunblaðinu örfáum dögum eftir að ríkisstjórnin birti samningsmarkmið sín í Balí og samkvæmt þeim hugmyndum lítur út fyrir að flest annað sé mikilvægara en að draga úr losun hér heima fyrir.

Það á að vernda regnskógana. Það á að tryggja að allir verði með, Kína og Indland, sem er sama krafa og Bush Bandaríkjaforseti setti fram sem þýðir í rauninni að ábyrgðin eigi að vera allra annarra en okkar eða þess sem talar. Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson talar líka fyrir svokallaðri geiranálgun. Mér finnst farið að örla á því í tali hæstv. umhverfisráðherra líka að geiranálgunin skipti máli en hún er stórhættuleg. Hún getur auðveldlega aukið þrýstinginn á aukna orkusölu til stóriðjufyrirtækja með tilheyrandi fórnum náttúrugæða og verðmætra náttúruverndarsvæða. Geiranálgunin kann að leiða til þess að álver flytji beinlínis framleiðslu sína hingað til lands í enn auknum mæli þar sem það verði þeim keppikefli að nýta orkuauðlindir sem ekki losa gróðurhúsalofttegundir.

Það sem bíður þessarar ríkisstjórnar, hæstv. forseti, er að sýna og sanna í verki að hún ætli sér að draga úr (Forseti hringir.) losun gróðurhúsalofttegunda hér heima fyrir. Það hefur dregist allt of lengi að (Forseti hringir.) dusta þá stefnu ríkisstjórnarinnar, hvernig hún ætlar sér að draga úr losun.