135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:50]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Metnaðarleysi Framsóknarflokksins í atvinnu- og umhverfismálum ríður ekki við einteyming. Meiri mengandi stóriðju, meiri mengandi stóriðju og meiri mengandi stóriðju er eins og þráhyggja hjá þingmönnum flokksins. (Gripið fram í.) Skilaboð hans til heimsins (Gripið fram í.) eru þau ein: Mættum við fá að menga meira? Nú þegar alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir hinni mestu ógn sem loftslagsbreytingarnar eru.

Vissulega er það rétt að við eigum að nýta endurnýjanlega orkugjafa okkar, en það er fásinna að halda því fram að til þess þurfum við að sækjast eftir mengandi atvinnustarfsemi. Við höfum þvert á móti í sívaxandi mæli verið að fá áhugasöm fyrirtæki hingað með ómengandi starfsemi eins og netþjónabúin, eins og kísilflöguframleiðsluna og fleiri dæmi mætti nefna. Það er fagnaðarefni að Landsvirkjun skuli hafa lýst því yfir að sú orka sem fyrirtækið kann að afla hér suðvestanlands verði ekki nýtt í nýja mengandi starfsemi á Suðvesturlandi. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Við eigum líka að nýta verkþekkingu okkar til þess að virkja endurnýjanlega orkugjafa, ekki fyrst og fremst í náttúru Íslands heldur um heim allan. Við eigum verkþekkingu, við eigum fjármálaþekkingu, við eigum tækniþekkingu til að miðla heiminum og það eru störf af því tagi sem nýjar kynslóðir Íslendinga hafa miklu meiri áhuga á en þeim einhæfu verksmiðjustörfum sem Framsóknarflokkurinn kallar enn eftir. Það er engu líkara en að flokkurinn hafi einfaldlega gleymst á síðustu öld (BjH: Landsvirkjun er ekki Samfylkingin.) og dagað þar uppi sem hvert annað nátttröll. (JGunn: Hefja náttúruspjöll um allan heim?)