135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:56]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir lokaorð síðasta ræðumanns, hv. þm. Péturs Blöndals. Hlýnun jarðar er staðreynd en það er líka staðreynd að það er líka að hlýna á Venus og það er líka að hlýna á Mars. Hvernig skyldi standa á því?

Hvernig svo sem því víkur við erum við sammála um, og ég sé ekki að neinn ágreiningur sé um það, að við eigum að láta náttúruna njóta vafans. Spurningin er: Hvað eigum við að kosta miklu til? Hlýnun jarðar er ekki eintómt vandamál. Hlýnun jarðar, hlýnandi vetur á norðurhveli, hefur þýtt að dauðsföllum í Evrópu hefur fækkað um marga tugi þúsunda á hverju ári. (Gripið fram í.) Það skrifar umhverfisverndarsinninn Björn Lomborg t.d. í nýjustu bók sinni og rekur með ágætum rökum. Ég reikna með því að þeir sem telja sig hafa einkarétt á staðreyndum mála í þessu sambandi, vinstri grænir, vilji ekki viðurkenna þau sjónarmið og þau rök sem þar koma fram en það er annað mál. (Gripið fram í.)

Höfuðatriðið er samt sem áður — og ég ætla ekkert að fara að vandræðast við ykkur um það — að hæstv. umhverfisráðherra svaraði ekki þeirri spurningu sem til hennar var beint, þ.e. einfaldri spurningu um það hver væru nákvæmlega samningsmarkmið Íslands í þeim viðræðum sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson vék að. Vikið var að því að verið er að gefa undanþágur fyrir Indland og Kína, eða um 40% mannkyns, en ekki vikið að því að við ættum að njóta þess með einum eða öðrum hætti að við höfum að mestu leyti notað endurnýjanlega orkugjafa um árabil. Ég segi: Að sjálfsögðu eigum við að gera kröfu til þess að fá að njóta allra þeirra undanþágna sem við eigum möguleika á því að undanþágurnar eru peningar, þær eru einhvers virði í þessum hnattræna heimi, og við erum ekkert að menga mikið og það er alrangt að við séum að fara fram úr Bandaríkjamönnum. (Gripið fram í: 17 tonn á mann.)