135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:58]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, ég held að hún hafi verið þörf. Ég verð samt að lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir því að ekki hafi komið fram hver raunveruleg samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar eru. Það er ekki eftir neinu að bíða í þeim efnum og ég hvet nefndina, þessa fjórmenninga, til þess að setjast niður, koma aftur að borðinu og koma sér saman um eina stefnu. Ég held að það þurfi að gera hið allra snarasta.

Við vorum á fundi með Al Gore í gær. Hann sagði að sérstaða Íslands væri fólgin í því að við nýttum endurnýjanlega orkugjafa okkar í atvinnuuppbyggingu. Ég skildi hann á þann hátt að hann væri að segja að við værum (Gripið fram í.) framarlega á heimsvísu hvað varðar umhverfisþáttinn og að við legðum okkar af mörkum.

Hæstv. umhverfisráðherra minntist hér á muninn á milli iðnríkja og þróunarríkja og ég var að velta fyrir mér hvort hún setti okkur undir sama hatt og önnur iðnríki. Eins og fram kom í máli hv. þm. Samúels Arnar Erlingssonar eru 70% af orku okkar umhverfisvæn og það er allt annað en er í öðrum iðnríkjum.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði að við ættum að hugsa um málið hnattrænt. Hann sagði síðan að það hljóti að vera stefna Íslendinga að sækja um undanþáguákvæði. Þá spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: Er hún sammála stefnu Sjálfstæðisflokksins? (Gripið fram í.)

Það var holur málflutningur sem kom frá hv. þm. Helga Hjörvar.