135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[16:00]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum og málshefjanda sérstaklega fyrir upplýsandi umræður. Undrar mig samt að ekki nokkur hinna hv. þingmanna hafi rifjað upp að fyrir rúmu ári var samþykkt stefnumörkun í ríkisstjórn Íslands, sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sátu þá í, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 50–75% fyrir árið 2050 (Gripið fram í: Hvar er áætlunin?) og sú áætlun stendur og hefur ekki breyst. Það skiptir engu máli hvernig samningar fara í Kaupmannahöfn 2009. Auðvitað vonum við öll heitt og innilega að samningar náist um sameiginleg bindandi hnattræn markmið. Stefnumörkunin stendur og það er verkefnið.

Hv. þingkonur Vinstri grænna kalla hér fram í: Hvar er áætlunin? Hún mun líta dagsins ljós á þessu ári eins og allir vita sem hafa kynnt sér málið. Hún er ekki hrist fram úr erminni frekar en annað sem vanda á til og gera vel.

Það er undarlegur málflutningur og ábyrgðarlaus með öllu að reyna að halda því fram að einhvers konar alvirkjun Íslands til álframleiðslu sé kostur. Vilja menn hugsa þá hugsun til enda? Á ekki að byggja upp neina aðra atvinnu á Íslandi? Á ekki að byggja upp aðra orkufreka starfsemi? (Gripið fram í.) Nei, nú segja þingmenn: Við erum ekki að tala um það. En það er í raun það sem menn eru að segja, það er að virkja og virkja fyrir eina tegund atvinnugreinar og ef það er gert eru aðrar atvinnugreinar jafnframt útilokaðar. (Gripið fram í.) Það er kannski hollt að hv. þingmenn hafi það í huga.