135. löggjafarþing — 88. fundur,  9. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er rökstuðningur okkar fyrir þessari tillögu um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar að hér sé á ferðinni lagasetning um hernaðarumsvif og útgjöld sem engin rök standi til að réttlæta. Engin þarfagreining, ekkert hættumat hefur farið fram. Engu að síður er þegar farið að ráðstafa milljörðum króna til útgjalda á þessu sviði. Það er því byrjað á öfugum enda augljóslega í þessum efnum og við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnar og henni falið að efna meðal annars eigin loforð úr stjórnarsáttmála um þverpólitíska vinnu og stefnumótun á þessu sviði og að viðbrögð Alþingis og eftir atvikum síðar meir lagasetning taki mið af niðurstöðum slíkrar vandaðrar faglegrar vinnu. Slíkt liggur ekki til grundvallar í þessu máli og segja má að það sé fyrst nú sem viðleitni til slíks sé að hefjast í formi nefndarstarfs undir forustu Vals Ingimundarsonar þannig að það eru engar efnislegar forsendur til þess að standa að afgreiðslu þessa frumvarps og eðlilegast að vísa því frá.