135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

ferð ráðuneytisstjóra til Írans.

[10:37]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þetta svar. Það liggur þá fyrir að ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fór á vegum utanríkisráðuneytisins til Írans m.a. vegna þeirra hagsmuna að við erum að sækjast eftir því að ná kosningu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. En þá er spurning hvort þarna er um stefnubreytingu að ræða í utanríkismálum þegar við erum farin að leggja áherslu á að vera í sambandi við ríki eins og Íran til að ná kosningu til öryggisráðsins. Samrýmist það þeirri stefnu sem íslenska ríkisstjórnin og íslenska þjóðin hafa markað í mannréttindamálum að við beitum okkur sérstaklega til að hafa samband við klerkastjórnina í Íran? Er þetta stefnubreyting af hálfu ríkisstjórnarinnar eða er það markvisst og meðvitað að við eigum að sækja um stuðning í hvaða formi sem er, óháð því hvaða þjóðir það eru og fyrir hvað þær standa ef þær geta hugsanlega greitt okkur atkvæði? Erum við þá að gera lítið úr þeim mannréttindaatriðum (Forseti hringir.) sem við höfum hingað til lagt áherslu á sem þjóð?