135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

ferð ráðuneytisstjóra til Írans.

[10:38]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það á við um okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir sem óska eftir stuðningi í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að við leitum hófanna hjá þeim þjóðum sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum, það eru 192 þjóðir. Við þurfum að fá tvo þriðju hluta atkvæða til að komast inn í öryggisráðið. Það segir sig auðvitað sjálft að fjölmargar þeirra þjóða sem væntanlega mundu greiða okkur atkvæði falla ekki undir þá skilgreiningu sem við notum almennt þegar við erum að tala um lýðræðisþjóðir heimsins. Staða mála innan Sameinuðu þjóðanna er nú einu sinni þannig að fjölmargar þessara þjóða teljast ekki lýðræðisþjóðir í okkar vestræna skilningi. Engu að síður erum við að leita hófanna hjá þeim, leita eftir stuðningi á okkar forsendum vegna þess að við stöndum fyrir ákveðna hluti og kynnum það rækilega fyrir hvað við stöndum. Við stöndum fyrir mannréttindi og munum að sjálfsögðu fylgja þeim fram í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, verðum við kosin þangað inn.