135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Íslendingur í einangrunarvist í Færeyjum.

[10:41]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Þær fregnir sem okkur hafa borist af þessari einangrunarvist Íslendingsins í Færeyjum eru auðvitað mjög sérkennilegar og í rauninni með ólíkindum að einstaklingi skuli haldið svo lengi í einangrun. Það hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum í viðtali við ræðismann okkar í Færeyjum, sendiherrann Eið Guðnason, að hann hafi reynt að beita sér í þessu máli og hafi verið í samskiptum við færeysk stjórnvöld. Þau hafa vísað til þess að það séu dönsk yfirvöld sem fari með dómsmálin í Færeyjum en að sjálfsögðu er það algerlega óviðunandi að maður sitji í einangrunarvist svo lengi.

Við höfum verið að skipta okkur af þessu máli í gegnum ræðismanninn sem hefur látið sig þennan einstakling varða og hefur m.a. sinnt honum meðan á þessari vist hefur staðið. Við munum halda áfram sambandi við stjórnvöld og reyna að sjá til þess að slíkt endurtaki sig ekki.