135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárfesting erlendra aðila í sjávarútvegi.

[10:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna afstöðu hæstv. ráðherra sem fram kom í svörum hans. Hún er skýr að því leyti að hann styður ekki breytingar á umræddum lögum í þá veru að opna fiskveiðar fyrir erlendri eignaraðild. Það var kannski ekki alveg eins skýrt hversu langt hann vildi ganga varðandi fiskvinnslu en ég skildi svör hans á þann veg að hann vildi ekki rýmka lagaákvæðið heldur benda mönnum á að nýta þau ákvæði sem væru fyrir hendi í gildandi lögum.

Ég tel það fagnaðarefni að fyrir liggi að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur þessa afstöðu einmitt vegna starfshópsins sem er í gangi til að endurskoða lögin. Niðurstaða starfshópsins hlýtur að endurspegla afstöðu ráðherrans í þeim kafla laganna sem varðar sjávarútveg. Annað væri óeðlilegt ef ríkisstjórnin fylgdi ekki afstöðu ráðherrans í því.