135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sjálfbær þróun og hvalveiðar.

[10:54]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um sjálfbæra þróun og hvalveiðar. Vegna þess hvernig hv. þm. Birkir Jón Jónsson leggur málið upp þurfum við kannski að spyrja okkur að því að þegar Íslendingar veiddu 500 þús. tonn af þorski á ári, hvað át hrefnan mikið þá? Hvað voru þá margar hrefnur í sjónum? Getur það ekki verið að inngripin séu einmitt ekki inngrip inn í hina náttúrulegu keðju, hver étur hvern, heldur inngrip tækni og manns, inngrip skipa, inngrip gerða veiðarfæra, sá skaði sem unninn hefur verið á lífríki hafsins, á lífríki hafsbotnsins sem við höfum rannsakað allt of lítið. Þetta þarf að leiða í ljós. Ekki síst í ljósi sjálfbærrar þróunar.

Hvaða áhrif hefur inngrip mannsins á lífríki hafsins? Hvaða áhrif hefur mengun á lífríki hafsins? Hvaða áhrif hefur hin gífurlega tækni, sem er hvergi betri en á Íslandi, í veiðum og veiðarfærum á lífríki hafsins? Þessum spurningum þarf að svara. Og ég lít ekki svo á að aðalvandi okkar sé að hrefnan éti þorsk. Það höfum við alltaf vitað og það hefur hún alltaf gert í aldanna rás, í áranna rás. Það hefur ekkert breyst síðastliðin 200 ár.

Hvað hvalveiðarnar varðar fyrir Íslendinga þá hef ég svo sem áður sagt að frumbyggjarökin eiga ekki við á Íslandi þegar hvalveiðar eru annars vegar. Það voru útlendingar sem komu til Íslands og hófu hvalveiðar og kenndu okkur að skjóta hval. Við höfum ekki stundað hér hvalveiðar síðan menn numu land á níundu öld. Það er síður en svo þannig. Þau rök eiga ekki við okkur í því máli. Svo að ég fari nú ekki út í (Forseti hringir.) ímyndarvandamálið sem af þeim skapast.