135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sjálfbær þróun og hvalveiðar.

[10:56]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að okkur hæstv. ráðherra greini á þegar við skilgreinum hugtakið sjálfbær þróun því að sjálfsögðu gengur það ekki upp til lengdar að efsta lagið í fæðukeðjunni sé látið óáreitt í lífríkinu í hafinu. Hrefnan ein og sér étur milljón tonn af fiski á ári. Aðrar hvalategundir éta milljón tonn af fiski á ári og við getum ekki látið eins og það hafi engin áhrif á fiskstofna eins og loðnuna og þorskinn. Þorskveiðiheimildir eru núna í algeru lágmarki, 130 þús. tonn. Ef við setjum það í það samhengi sem hrefnan ein og sér étur á ári hverju þá étur hún milljón tonn.

Svo erum við að tala hér á Alþingi um einhver tugþúsundir tonna til eða frá. Að sjálfsögðu hafa hvalir heilmikil áhrif á viðgang stofna eins og loðnunnar og þorsksins. Það hlýtur að vera í anda sjálfbærrar þróunar að við skilum til komandi kynslóða sterkum þorskstofni og sterkum loðnustofni og skiljum ekki eina fæðutegund út undan í því, sem er hvalurinn. (Forseti hringir.) Við verðum að auka veiðar á þessum tegundum.