135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Veðurstofa Íslands.

517. mál
[11:20]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sem formaður umhverfisnefndar þakka ég hæstv. ráðherra fyrir framsögu í málinu og það frumvarp sem hún hefur lagt fram. Eins og fram hefur komið í því samkomulagi sem náðist um breytingar á verkaskiptingu í Stjórnarráðinu þá er flutningurinn á vatnamælingunum sá þáttur sem minnst hefur verið umdeildur og gott ef ekki er alger sátt um hann. Ég vænti þess, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að um umfjöllun málsins takist góð samstaða í nefndinni þó að einhverjar lítils háttar breytingar kunni að verða á einstökum útfærsluatriðum í meðförum nefndarinnar eins og gengur.

Ég tel að það tækifæri sem felst í sameiningu á þessum tveimur þáttum gefi færi á því að auka og efla náttúruvaktina í landinu og að sinna þeim nýju verkefnum sem við okkur blasa í rannsóknum og breytingum á loftslagsmálum og þeim miklu verkefnum sem bíða okkar á því sviði. Það er því út af fyrir sig fagnaðarefni að þessir starfsþættir verði í framtíðinni sameinaðir, vatnamælingarnar og starfsemi Veðurstofunnar.