135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[11:34]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.

Núgildandi lög tóku gildi um mitt ár 2006 en með þeim voru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 60/2005/EB. Féllu þá úr gildi eldri lög um aðgerðir gegn peningaþvætti, nr. 80/1993.

Ísland hefur verið aðili að hinum alþjóðlegu FATF-samtökum frá árinu 1991 en skammstöfunin stendur fyrir Financial Action Task Force. Samtökin vinna að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hafa ríki sem tekið hafa þátt í FATF-samstarfinu verið í fararbroddi þjóða á þessu sviði á síðustu missirum. Á alþjóðavettvangi hefur í ríkum mæli verið litið til starfsemi FATF og hún verið leiðandi. Til dæmis hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti verið til samræmis við tilmæli FATF um þau mál.

Árið 1990 gáfu FATF út fjörutíu tilmæli er varða aðgerðir gegn peningaþvætti. Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 gáfu FATF út níu svokölluð „sérstök tilmæli“ en þau miða að því að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka. Með aðild sinni að FATF hefur Ísland skuldbundið sig til að samræma löggjöf sína og starfsreglur að tilmælum samtakanna.

Einn hluti í starfsemi FATF er að framkvæma reglulega úttektir á framfylgni aðildarríkjanna við áðurnefnd tilmæli og gefa ríkjunum einkunnir sem mælikvarða á stöðu viðkomandi ríkis. Árið 2006 framkvæmdu samtökin úttekt á regluverki sem snýr að vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í kjölfar úttektarinnar skilaði FATF umfangsmikilli skýrslu, haustið 2006, um stöðu Íslands í málaflokknum og kom Ísland nokkuð vel út úr þeirri úttekt. Þó voru tiltekin atriði sem FATF gerði athugasemdir við og betur mega fara. Íslandi voru gefin tvö ár til að gera úrbætur til samræmis við athugasemdirnar.

Ráðgjafarnefnd, skipuð af viðskiptaráðherra, hefur á síðustu missirum starfað og leitað leiða til að vinna úr athugasemdum FATF. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti ásamt fulltrúum frá embætti ríkislögreglustjóra, Félagi fasteignasala, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Lögmannafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Á fundi FATF-samtakanna á hausti komandi ber Íslandi að gera grein fyrir þeim úrbótum sem íslensk stjórnvöld hafa gert til samræmis við þær athugasemdir sem fram komu í skýrslu FATF frá 2006. Mikilvægt er að góður árangur náist í þessari eftirfylgnisúttekt. Frumvarp þetta byggir á tillögum ráðgjafarnefndarinnar og breytingarnar sem í því felast miða að því að færa til betri vegar þau atriði sem FATF gagnrýndi og eru mikilvægur liður í því að trúverðugleiki og traust íslensks viðskiptalífs haldist.

Vegna áðurnefndra athugasemda FATF mælir frumvarpið víða fyrir um skerptar áherslur frá gildandi lögum. Jafnframt er í frumvarpinu að finna tvenn nýmæli sem einnig hafa það að markmiði að taka mið af athugasemdum FATF.

Annars vegar er um að ræða athugasemdir sem lúta að peninga- og verðmætasendingarþjónustu en FATF hefur gefið út sérstakt tilmæli um slíka þjónustu. FATF gagnrýnir í úttektarskýrslu sinni að íslensk lög geri hvorki kröfu um skráningu né að aflað sé leyfis til að mega starfrækja peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Þá sé jafnframt ekki gerð krafa um eftirlit með starfsemi sem þessari og því séu engin viðurlagaákvæði í íslenskri löggjöf.

Til að bregðast við athugasemdum FATF er í frumvarpinu lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta fari að ákvæðum laganna, reglugerðum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim. Lögð er til skráningarskylda hjá Fjármálaeftirlitinu fyrir starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva og peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Jafnframt er skilgreint hvaða starfsemi það er sem fellur undir fyrrgreind hugtök.

Hins vegar er sem nýmæli í frumvarpinu gerð tillaga um að Neytendastofa verði jafnframt eftirlitsaðili með því að þeir sem falla undir j-lið 1. mgr. 2. gr. núgildandi laga fari að ákvæðum laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim en í gildandi lögum gegnir Fjármálaeftirlitið eitt eftirlitshlutverki. FATF gerði athugasemdir við það að þessir aðilar væru ekki nægilega upplýstir um skyldur sínar samkvæmt lögunum. Hér er um að ræða einstaklinga eða lögaðila sem í atvinnuskyni selja hluti sem greitt er fyrir með reiðufé, hvort sem viðskiptin fara fram í einni greiðslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri, að fjárhæð 15.000 evrur eða meira miðað við opinbert skráð viðmiðunargengi hverju sinni. Mætti hér nefna söluaðila dýrrar vöru, t.d. þá sem selja skartgripi úr eðalmálmum og eðalsteinum og þá sem selja nýjar eða notaðar bifreiðar. FATF nefnir sérstaklega að þessir aðilar séu ekki nægilega upplýstir um þá skyldu að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Jafnframt að þeim beri að tilkynna til lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi.

Eftirliti þessu þykir best fyrir komið hjá Neytendastofu og hefur stofnunin fallist á að taka það að sér en gert er ráð fyrir því að Neytendastofa setji nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki þörf á að lýsa frumvarpinu frekar efnislega en að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.