135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

540. mál
[11:54]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. viðskiptaráðherra að það frumvarp sem hér er lagt fram sé að mörgu leyti til bóta. Til að mynda er mjög gott að felld skuli niður skylduaðild að Félagi fasteignasala sem er óeðlilegt fyrirbrigði í lögum. Þá er sett hér ákveðin ákvæði og sniðnir af þeim lögum sem í gildi eru ákveðnir annmarkar og það er allt til góða. Hins vegar er spurning um ýmis atriði með tilliti til þess hvernig reynslan hefur verið.

Í fyrsta lagi var mjög gott þegar tekin var upp sérstök starfsábyrgðartrygging fyrir fasteignasala. Á þá starfsábyrgðartryggingu hefur reynt í mörgum tilvikum og það hefur sýnt sig að það var tvímælalaust nauðsyn að hafa slíka tryggingu í gildi eins og reyndar gagnvart ýmsum öðrum starfsstéttum. Svo er spurning hvort setja eigi einhverja aðra og flóknari umgjörð um þessa starfsemi viðskiptalífsins en margar aðrar. Eins og hæstv. viðskiptaráðherra gat um áðan að hafa verið gerðir á undanförnum árum milli 14.000 og 15.000 kaupsamningar um fasteignir. Í undantekningartilvikum, það eru mjög fáir samningar, hefur reynt á ábyrgð eða skyldur fasteignasala þannig að það verður að líta til þess, miðað við þann fjölda samninga sem um er að ræða, að hér sé um tiltölulega trygg viðskipti að ræða og þarna hafi tekist vel til og lagaumgjörðin um þessa starfsemi sé góð. Hins vegar er spurning hvort þetta sé gert með fullnægjandi hætti því að eins og hæstv. ráðherra gat um þá er það alveg rétt að hér er iðulega um lífssparnað einstaklinga að ræða, þannig að setja verður þann lagaramma að þeir sem koma að málum séu bundnir með þeim hætti að þar sé gætt öryggis kaupanda og seljanda í hvívetna.

Ýmis atriði í frumvarpinu orka þó tvímælis. Til dæmis spurningin um það hvort setja eigi ákveðna takmörkun um það að fasteignasali sjálfur skuli eiga fasteignasölu. Af hverju á hann að þurfa að eiga fasteignasölu? Er ekki nægjanlegt að hann starfi hjá fyrirtæki sem hefur leyfi og hann fullnægi öllum skilyrðum en hann þurfi hvorki að vera meirihlutaeigandi né hluthafi í sjálfu fyrirtækinu? Er ekki æskilegt að það séu stærri einingar sem sinni þessum hlutum? Af hverju á þá að skylda fasteignasalann til þess að vera eigandi að fyrirtækinu? Þetta er eitt atriðið sem mér finnst hljóta að koma til skoðunar, hvort verið sé að gera rétt hvað þetta varðar.

Að öðru leyti finnst mér líka vera spurning um söluyfirlitið, að það sé of lítið gert með ábyrgð seljandans sjálfs á þeim upplýsingum sem fram koma í söluyfirliti. Nú gilda ákveðnar reglur um kaup og sölu fasteigna hvað varðar upplýsingaskyldu seljanda og það skiptir mjög miklu máli að ekki sé dregið úr þeirri skyldu seljenda að veita upplýsingar og að skyldur séu lagðar á fasteignasala umfram það sem eðlilegt er. Þess vegna hefði ég talið nauðsynlegt að breyta ákvæði 11. gr. á þann veg að það væri skýrt tekið fram að seljandi bæri ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann þekkir til og veitir fasteignasalanum, þannig að áritun hans þyrfti að koma til á söluyfirlitinu á sama hátt og kveðið er á um í 11. gr. að áritun kaupanda eigi að koma fram um að söluyfirlitið hafi verið borið undir hann. Vegna þess að það er jú alltaf þannig að sá sem selur eignina verður að bera ábyrgð á því sem hann gerir og það á aldrei að varpa ábyrgðinni yfir á einhvern annan. Fasteignasalinn er milliliður og það er löggjafans að gæta þess að um þann millilið gildi skýrar lagareglur þannig að hann uppfylli skyldur sínar, sé til þjónustu og afli nauðsynlegra upplýsinga og veiti eðlilegar upplýsingar en umfram það er óeðlilegt að leggja á hann einhverjar skyldur sem kaupandi og seljandi eiga í raun réttu að bera.

Í lokamálsgrein 13. gr. er reyndar vikið að skyldu seljanda til að veita upplýsingar og þá er spurningin um þær upplýsingar sem seljandi ber raunverulega ábyrgð á.

Í 15. gr. er spurning varðandi upplýsingar um fasteignina, hvort nauðsynlegt sé að hafa hreinlega víðtækari ákvæði um bannreglu við því að fasteignasali eða þeir sem vinna við fasteignasölu selji aðilum sem eru tengdir þeim eða skyldir. Þar er um eitt viðkvæmasta atriðið að ræða sem komið hefur upp að þarna getur verið veruleg hætta á ferðum.

Það er líka spurning varðandi lokaákvæði 16. gr. um það að fasteignasali skuli gæta þess að ekki séu settir ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Í sumum tilvikum er það nú svo að fasteignakaupendur vilja kaupa þó að óeðlilegir kostir séu settir þannig að spurningin er hvort fasteignasalinn skuli þá geta þess að hann telji eðlilegra að fara að með öðrum hætti en beri ekki ábyrgð á þeim löggerningi sem báðir aðilar vilja umfram allt að gangi fram.

Til að stytta mál mitt vil ég geta aðeins um eitt atriði. Það er varðandi eftirlitsnefnd með störfum fasteignasala. Ég tel að hér sé verið að fara flókna og dýra leið og því velti ég fyrir mér, miðað við það að vista á kærunefnd í málefnum fasteignasala, samanber 26. gr. frumvarpsins, hjá Neytendastofu, hvort ekki sé eðlilegt að skjóta styrkari stoðum undir Neytendastofu og fela henni víðtækara eftirlit en hún hefur í dag, að fela Neytendastofu hreinlega að hafa það eftirlit sem þarna er verið að fela sérstakri eftirlitsnefnd. Að mörgu leyti hefði mér fundist eðlilegra fyrst ríkisvaldið er á annað borð að setja þessar reglur að fela Neytendastofu að annast þetta eftirlit til að gæta þess þá sérstaklega að öryggi neytandans sé tryggt í þessum viðskiptum.

Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni með frumvarpið og vænti þess að viðskiptanefnd takist að vinna hratt og vel að afgreiðslu þessa frumvarps áður en þingi verður slitið í vor.