135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:18]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Heilbrigðiskerfi okkar telst félagslegt heilbrigðiskerfi. Það sem einkennir það er að þjónustugjöld sjúklinga eru lítil og lögð er áhersla á að tryggja öllum þegnum samfélagsins jafnan aðgang.

Í OECD-skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisástand er mjög gott, en kerfið er dýrt sem bendir til að auka þurfi hagkvæmni í ráðstöfun fjármuna.“

Það er ánægjulegt fyrir okkur framsóknarmenn sem höfum stýrt þessu kerfi síðustu 12 árin að fá þessa einkunnagjöf: Heilbrigðisástand er mjög gott.

En síðan segir: Kerfið er dýrt.

Ekki skal ég hafa á móti því að draga úr kostnaði ef það næst fram án þess að skerða þjónustu, en það er alls ekki það sem sjálfstæðismenn og Samfylking tala um. Það er verið að tala um að búa til milliliði í kerfið sem komi inn í það á viðskiptalegum forsendum.

Það var stigið mikilvægt skref til hagræðingar þegar ákveðið var í tíð Ingibjargar Pálmadóttur sem heilbrigðisráðherra að sameina Landspítalann og Borgarspítalann. Hagkvæmnin sem af þessu hlýst er ekki komin fram að fullu á meðan uppbyggingunni við Hringbraut er frestað af hálfu heilbrigðisráðherra af óskiljanlegum ástæðum. Hvert ár sem frestað er að sameina spítalana við Hringbraut kostar ríkissjóð eina 3 milljarða.

Hæstv. forseti. Íslenska heilbrigðiskerfið stendur á krossgötum. Það hefur ríkt almenn sátt um það í landinu að hér sé rekið félagslegt heilbrigðiskerfi þar sem hið opinbera hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Fram undan er í besta falli óvissa en ef til vill bylting undir forustu Sjálfstæðisflokksins og með stuðningi Samfylkingar.