135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:25]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Skýrsla OECD staðfestir það sem við höfum öll vitað, að við búum við gott og öflugt heilbrigðiskerfi. Það er algjör óþarfi fyrir framsóknarmenn að eigna sér heiðurinn af því enda fær breytingastjórnun þeirra á heilbrigðiskerfinu undanfarin ár einkunnina „changes of a shop — keeping nature“, með leyfi hæstv. forseta, eða „búðarlokubreytingar“ ef maður snarar því yfir á íslensku.

Þetta kerfi er með öðrum orðum, virðulegi forseti, gott. En það er líka dýrt og það er óeðlilega dýrt miðað við það hversu ung þjóðin er. (Gripið fram í: Landið er stórt.) Það var vissulega líka tekið tillit til þess í skýrslunni, hv. þingmaður, að landið er stórt. Þrátt fyrir alla þessa þætti er kerfið óeðlilega dýrt og stofnunin bendir — (Gripið fram í.) jú, stofnunin bendir á að flest bendi til að hægt sé að ná sama árangri með mun minni tilkostnaði.

Stjórnmálamenn sem kjósa að taka ekki mark á slíkum ábendingum eru ábyrgðarlausir stjórnmálamenn. Þá kemur að því hvernig við bregðumst við þessum ábendingum. Við búum í dag við heilbrigðiskerfi sem er byggt á hinni gömlu norrænu forsendu að það er þjónustukerfi en ekki tryggingakerfi. Fólk á rétt á þjónustu. Það er ekki að kaupa sér tryggingar eða þarf að fá endurgreidda þá þjónustu sem það leggur út fyrir hjá einhverju tryggingafélagi.

Þetta er það kerfi sem við viljum halda í og það er mjög jákvætt að í skýrslunni kemur fram að ekkert bendi til þess að einkavætt tryggingakerfi mundi leiða til meiri árangurs í kostnaðaraðhaldi en núverandi kerfi. Þvert á móti er í skýrslunni bent á að miðstýring í kerfinu sé jákvæð að því leyti að við getum nýtt hana til að ná fram meira kostnaðaraðhaldi, með uppbyggingu faglegs kaupendahlutverks í heilbrigðiskerfinu. Það er það sem ríkisstjórnin stefnir að þannig að það má segja að öll efnisleg rök mæli með því að við getum tryggt áfram góða heilbrigðisþjónustu og jöfnuð (Forseti hringir.) á efnalegum forsendum í heilbrigðiskerfi framtíðarinnar á grundvelli þeirrar stefnumörkunar sem ríkisstjórnin hefur markað.