135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:29]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur farið fram í dag um skýrslu OECD um heilbrigðismál á Íslandi. Það var í sjálfu sér ekki óvænt að vinstri grænir færu á móti tillögum OECD því að þeir hafa náttúrulega fordóma gagnvart öðrum rekstrarformum og þeir verða bara að sitja uppi með það að þeir eru á móti aðferðum sem hafa sýnt sig erlendis að eru til bóta.

Annað varðandi Framsókn, það er líka alveg makalaust að hlusta á málflutning Framsóknar sem stóð sig alveg ágætlega í heilbrigðismálum meðan hún var í heilbrigðisráðuneytinu eins og sést á þessari skýrslu. Þeir eru þó hér að tala um einkavæðingu og það með miklum bölmóð en það er bara nákvæmlega það sem Framsókn stóð fyrir í heilbrigðisráðuneytinu, þ.e. að gera samninga við Sóltún og gera samninga við Salahverfið sem eru hvort tveggja samningar og þjónusta sem er til fyrirmyndar. (Gripið fram í.)

Það er enginn munur á því sem þá var gert og því sem hin nýja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ætlar að gera. (Gripið fram í.) Það að setja þetta í það samhengi að þetta sé einkavæðing með einhverjum öfugum formerkjum, með einhverjum röngum formerkjum — við erum að halda áfram þeirri stefnu sem m.a. heilbrigðisráðherrar Framsóknar mörkuðu á sínum tíma. En við ætlum að ganga lengra. Ég held að Framsókn ætti aðeins að stilla sig í bölmóði sínum varðandi heilbrigðisþjónustuna. (Gripið fram í.)

En í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra kom fram að ríkisstjórnin hefur greint stöðu heilbrigðismála með svipuðum hætti og OECD og er sammála skýrsluhöfundum um flest í innihaldi hennar. Ráðleggingar OECD koma á réttum tíma og eru merki um að við séum á réttri leið til að gera íslenska heilbrigðisþjónustu enn betri.

Þrátt fyrir góða umsögn um stöðu íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru mörg verkefni fram undan og það eru þau verkefni sem ný ríkisstjórn mun taka á (Forseti hringir.) af krafti.