135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

undirbúningur að þjónustumiðstöð við olíuleit á Drekasvæði.

329. mál
[12:50]
Hlusta

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 537, 329. mál, sem fjallar um undirbúning að þjónustumiðstöð við olíuleit á Drekasvæði.

Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Einar Már Sigurðarson, Þuríður Backman, Ólöf Nordal og Höskuldur Þórhallsson.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að aðstoða sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp við að undirbúa og kanna þörf á starfrækslu þjónustumiðstöðvar sem gæti annast alla helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita olíu á Drekasvæði.

Forsaga málsins er sú að vorið 2005 samþykkti ríkisstjórn Íslands að leggja 30 millj. kr. til undirbúnings olíuleitar á Drekasvæðinu við Jan Mayen hrygg en jarðeðlisfræðilegar mælingar þóttu gefa allgóð fyrirheit um að olía og gas í vinnanlegu magni væri að finna þar. Frekari rannsóknir, þar á meðal rannsóknarboranir þarf hins vegar til að sannreyna hvort olíu eða gas sé í reynd að finna á þessu svæði. Í framhaldi þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar hófst samstarf átta ráðuneyta og fjölmargra stofnana við að yfirfæra gildandi lög og reglur og gögn um veður og náttúrufar á svæðinu og meta þörf á frekari rannsóknum. Niðurstöður þessarar vinnu voru settar fram í skýrslu með tillögu að áætlun um útgáfu og útboð rannsókna og eins leyfa auk umhverfisskýrslu. Skýrslan var m.a. unnin í samræmi við lög um mat á umhverfismati áætlana.

Í skýrslunni sem iðnaðarráðuneytið gaf út í mars 2007 var sett fram tillaga að áætlun um olíuleit á Drekasvæðinu þar sem m.a. eru skoðuð hugsanleg umhverfisáhrif þeirrar áætlunar í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfimat áætlana. Ríkisstjórnin samþykkti svo þann 18. desember 2007 tillögu iðnaðarráðherra um að stefnt verði að útboði sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu norðaustur af Íslandi. Um er að ræða hafsvæði sem er á bilinu 5.000–10.000 ferkílómetrar og miðað er við að hægt verði að bjóða leyfin út 15. janúar á næsta ári, 15. janúar 2009.

Það er hins vegar ljóst að ýmis undirbúningsvinna er fram undan áður en hægt verður að úthluta sérleyfum til rannsókna á vinnslu olíu á Drekasvæðinu. Iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun þurfa að endurskoða reglur, útfæra leyfisskilmála og útbúa staðlað leyfi, kynna þarf áformin fyrir olíuleitarfyrirtækjum og viðræður við Noreg um framkvæmd Jan Mayen samkomulagsins þurfa að fara fram. Það þarf að fara yfir umhverfis-, vinnuverndar- og öryggismál. Jafnframt þarf að ákveða fyrirkomulag eftirlits, setja upp samvinnu og samráðsvettvang eftirlitsaðila.

Eins og ég gat um áðan varðandi leyfisveitingar þá er miðað við það að hægt verði að bjóða út sérleyfi til rannsókna og vinnslu um miðjan janúar á næsta ári. Það felur í sér að tekið yrði á móti umsóknum í að minnsta kosti þrjá mánuði og þá má gera ráð fyrir að því ferli ljúki 15. apríl. Þá tekur við mat á umsóknum og síðan samningaviðræður við væntanlega umsækjendur og gera má ráð fyrir því að það ferli taki um það bil tvo til þrjá mánuði. Að öllu samanlögðu má búast við því að rannsóknar- og vinnsluleyfið geti verið veitt í fyrsta skipti um mitt ár árið 2009.

Á verksviði iðnaðarráðuneytisins verður að móta tillögur sem lúta að því að tryggja að sú starfsemi sem tengist þessu gríðarlega mikla máli geti farið fram að sem mestu leyti hér á landi. Ég hef fyrir því nokkuð ábyggilegar heimildir að heimilt sé við útgáfu rannsóknarleyfis að setja í leyfið það skilyrði að öll þjónusta vegna leitar að olíu og gasi skuli verða veitt frá Íslandi. Ef svo er þá er það eindregin skoðun mín að slík skilyrði beri að setja í þau leyfi sem gefin verða út. Að því gefnu að það gangi eftir verður að hafa nokkur snör handtök ef tímaáætlun sú sem ég fór yfir áðan gengur eftir, þ.e. að fyrstu leyfin til rannsóknarvinnslu verði gefin út um mitt næsta ár.

Sú tillaga sem hér er lögð fram af átta þingmönnum Norðausturkjördæmis er sprottin upp af frumkvæði sveitarstjórnanna í Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi. Sveitarstjórnarmenn þeirra byggðarlaga sem hér um ræðir hafa lagt sig fram um að leita allra þeirra leiða sem þeir telja færar til að styrkja búsetu á þessum útverði landsins í norðaustri. Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa ákveðið að stofna sameiginlegt fyrirtæki sem á að kanna hvort innanverður Bakkaflói henti undir þjónustumiðstöð fyrir áformaða olíuleit á Drekasvæði. Eðlilega staldra sveitarstjórnarmennirnir við þetta mál, þeir eru næstir væntanlegum vettvangi. Umrætt landsvæði hefur átt undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti og íbúum á þessu svæði landsins hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum og lítt fyrirsjáanlegt að sú þróun breytist. Skýringanna í þessum efnum er aðallega að leita í því að mikillar einhæfni gætir í atvinnulífi og sveiflur í sjávarútvegi og landbúnaði hafa haft og munu hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir atvinnulíf þessa svæðis. Þar af leiðandi hljóta allir sem áhuga hafa á byggð í landinu að kunna að meta þær hugmyndir sem liggja í þá veru að leita leiða til að snúa þeirri þróun við og skoða alla kosti í þeim efnum til hlítar. Leiði sú undirbúningsvinna sem fyrirhuguð er til þess að umrædd þjónustumiðstöð rísi við Bakkaflóa er líklegt að það verði mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á öllu Norðausturlandi, ekki aðeins í sveitarfélögunum tveimur sem hafa haft frumkvæði að því að farið verði í þessa vinnu.

Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð áforma að láta kanna þann möguleika að gera sérstaka þjónustuhöfn í þessu skyni þar sem verði nauðsynlegur búnaður til að annast alla þá þjónustu sem veita þarf skipum sem annast olíuleit og eins skipum sem þjóna leitarskipunum. Leiði rannsóknir til þeirrar niðurstöðu að olía verði unnin á Drekasvæðinu mun slík höfn einnig nýtast til flutninga á gasi frá landinu þar sem trúlegast yrði lögð gaslögn frá vinnslusvæðinu í land við Bakkaflóa og þar yrði þá væntanlega reist gasþjöppunarstöð. Vegalengdin í land er sú stysta sem völ er á á þessum svæðum. Ég vil hins vegar taka fram að slík áform munu gefa efni í aðra og sérstaka áætlun og eru því ekki til frekari umræðu að þessu sinni.

Einnig er áformað að sveitarfélögin taki að sér að hafa á svæðinu allan þann neyðar- og björgunarbúnað sem til þarf svo unnt verði að bregðast við neyðartilvikum í samstarfi við björgunarsveitir og Landhelgisgæslu. Það liggur fyrir að annars vegar þarf að gera botn-, þrívíddar- og öldumælingar í Bakkaflóa til að hægt verði að meta hvort staðsetningin uppfylli kröfur sem gerðar verða til slíkrar hafnar og hins vegar þarfagreiningu þar sem farið verði yfir þá þætti sem þjónustumiðstöð eins og sú sem hér um ræðir þarfnast, svo sem samgöngur, þjónustu hvers konar, landnýtingu og fleira.

Samkvæmt skýrslu iðnaðarráðuneytisins sem þessi þingsályktunartillaga byggir á munu helstu þættir í þjónustu við rannsóknir og vinnslu á olíu og gasi vera þeir að það þarf rekstur þjónustumiðstöðvar í landi, reglulegar siglingar með vistir, varahluti og rekstrarvörur og reglulegt þyrluflug með starfsmenn og hraðsendingar. Í kafla 2.41 á blaðsíðu 29 í þeirri skýrslu sem iðnaðarráðuneytið gaf út í mars á síðastliðnu ári er fjallað um þjónustumiðstöð í landi. Þar kemur fram að á rannsóknarstigi er reynt að styðjast sem mest við þá aðstöðu sem fyrir er á viðkomandi svæði en allt annað er uppi á teningnum ef rannsóknirnar bera árangur.

Ef litið er til reynslu Norðmanna í þessum efnum þegar verkefni eins og þetta er komið á vinnslustig þá mun landþörf þjónustumiðstöðvar verða um 40–50 hektarar þar sem meginhlutinn er ætlaður undir þjónustufyrirtæki. Legupláss við bryggju fyrir skip með allt að 14–15 metra djúpristu þarf og má gera ráð fyrir að þau skip séu allt að 250 metrar að lengd. Fjöldi starfsmanna við slíka þjónustumiðstöð er áætlaður um 90 manns.

Að öllu samanlögðu er hér um að ræða mikilsvert mál og hvernig svo sem við kjósum að líta til þess ef þetta gengur upp þá getum við verið að horfa til þess að verið sé að leggja grunn að nýrri atvinnugrein í landinu. Við getum líka horft til þess ef þetta gengur upp að sú atvinnuuppbygging á þessu nýja sviði geti farið fram á þeim stað á landinu sem mest á undir í byggðalegu tilliti. Þannig að hvernig svo sem þetta er nálgast þá tel ég þess virði að gefa því rækilegan gaum og taka undir með þeim sveitarstjórnum á svæðinu sem vilja vinna að framgangi þess á þeim grunni sem hér hefur verið lýst.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að hafa fleiri orð að sinni um þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram en vonast til þess að að lokinni umræðu verði tillögunni vísað til hv. iðnaðarnefndar og síðari umræðu hér á hinu háa Alþingi.