135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[14:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa máls eins og reyndar síðasti hv. ræðumaður þannig að það telst trúlega ekki til tíðinda að maður komi hér í ræðustól og lýsi stuðningi við það (GÁ: Og þykja aldrei tíðindi að þú stígir í ræðustól.) — fyrir nú utan það að það eru engar sérstakar fréttir að ég stígi hér í þennan ræðustól, það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni. Ég heyri að það liggur vel á honum í dag enda eðlilegt því að við erum hér að ræða um tillögu sem hann er 1. flutningsmaður að og er sennilega ein besta hugmynd hans frá upphafi vega. Trúlegt að hv. þm. Guðni Ágústsson geti þess vegna farið að huga að eftirlaunaárunum því nú hefur hann unnið sitt stærsta afrek með því að leggja fram þessa tillögu um skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar. — Menn verða náttúrlega að taka því ef þeir kalla fram í að þeim sé svarað.

Ég tel alveg einstaklega vel til fundið að halda á lofti og heiðra minningu þessara tveggja stórmenna og viðeigandi að reyna að tvinna það saman. Auðvitað verður manni hugsað til margra fleiri góðra manna en ég held að tæpast sé um það deilt að þessi tvö nöfn standi talsvert upp úr í okkar kafla skáksögunnar, bæði hinnar íslensku og hinnar alþjóðlegu, þar sem er annars vegar Friðrik Ólafsson og hins vegar Fischer og hans afrek hér 1972, og svo hans dramatísku síðustu æviár sem tengdust Íslandi.

Ég vil líka minna á að Friðrik Ólafsson er meira en okkar fyrsti stórmeistari, átrúnaðargoð og fyrirmynd þeirra sem voru að glíma við skáklistina á uppvaxtarárum, eins og sá sem hér stendur. Hann var síðan skrifstofustjóri þessarar stofnunar, Alþingis, um langt árabil og var ákaflega farsæll í því starfi. Alþingi á honum þar af leiðandi skuld að gjalda líka sem slíkum og ekki færi illa á því að hafa það í huga og minnast þess þegar Alþingi leggur sitt af mörkum í þessum efnum.

Ég var svo heppinn að komast m.a. í ágæta Rússlandsferð, sem fulltrúi í sendinefnd á vegum Alþingis, með þáv. skrifstofustjóra Friðriki Ólafsson í föruneytinu. Það var alveg sama hvar við komum að þegar föruneytið var kynnt og endað á því að kynna grandmaster Ólafsson bukkuðu allir sig og beygðu og við skiptum engu máli eftir það. Langmikilvægasta persóna sendinefndarinnar var að sjálfsögðu grandmaster Ólafsson þegar Rússar áttuðu sig á því hver var þar á ferð, að það var enginn annar en Friðrik Ólafsson, fyrrverandi forseti Alþjóðaskáksambandsins og þekktur stórmeistari.

Ég vil líka minna á það að lokum að það er vissulega mikilvægt að við höfum í huga að allt sem við gerum í þessum efnum þjóni ekki bara einhverjum táknrænum tilgangi, þó að það sé góðra gjalda vert og í fullum rétti sem slíkt, eins og aðgerðir til að halda á lofti minningu og heiðra þessa menn, heldur sé það líka markviss hluti af því að efla skáklistina og búa betur að henni og gera veg hennar sem mestan og halda henni lifandi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt, og má aldrei gleymast, að hún þarf næringu neðan frá og það er fræðslu- og stuðningsstarf sem þarf að vinna og við eigum ekki síður því fólki mikið að þakka sem hefur lagt sitt af mörkum þar. Manni verður þá að sjálfsögðu hugsað til Hróksins og Hrafns Jökulssonar og þess ótrúlega þrekvirkis sem hann hefur unnið af áhuga sínum og ég leyfi mér líka að nefna fráfarandi forseta Skáksambandsins, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, og hennar mikla starf, bæði sem forseta Skáksambands Íslands, Skáksambands Norðurlanda og fyrstu konunnar sem gegnt hefur þeim embættum og þó meira væri.

Ég sæi það því gjarnan fyrir mér að þetta alþjóðlega skáksetur væri einhvern veginn tengt inn í heildarmyndina þannig að það væri mjög meðvitaður og þaulhugsaður hluti af allri okkar viðleitni til að efla skáklistina. Ýmislegt hefur verið vel gert í þeim efnum eins og launin sem eru í boði fyrir skákmenn, eða þá sem þeim árangri ná, og útbreiðslustarf sem ríkið styður og skákfélög og einstaklingar, fyrirtæki og aðrir, styðja. Allt ætti þetta að geta farið vel saman ef vel er að því hugað og fyrirhuguð skákakademía hér í Reykjavík og hvað það nú er annað, það á allt að geta unnið hvað með öðru. En það þarf auðvitað að hugsa það, það þarf að vera sett í samhengi og í einhverju skipulagi og ég held að það sé best komið í höndum þess fólks sem heldur utan um málefni skáklistarinnar í landinu, þ.e. Skáksamband Íslands og skákfólkið sjálft, okkar fríði hópur stórmeistara og alþjóðlegra meistara og hugsjónafólkið sem hefur drifið þessa hluti áfram — og ég hef með fullri virðingu fyrir og að öllum öðrum ólöstuðum einungis nefnt hér tvær manneskjur, þau Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Hrafn Jökulsson.

Sem sagt, virðulegur forseti, þetta er svo afbragðsgóð tillaga að þó að nokkuð sé liðið á þingveturinn fyndist mér að Alþingi ætti að gera gangskör að því að afgreiða þetta mál. Þetta er mál af því tagi sem menn eiga ekki að þurfa að mylja með sér eins og ónefndur fyrrverandi þingmaður hefði kannski orðað það hér einu sinni.