135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[14:14]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Hér kemur hver þungavigtarmaðurinn á fætur öðrum og lýsir yfir stuðningi við þessa tillögu. Ég (GÁ: Bætist einn í hópinn.) bætist í þann hóp í þeirri von að vera talinn til þungavigtarmanna. Ég er mikill unnandi íþrótta eins og flestum er kunnugt og þar á meðal skákíþróttarinnar. Ég tel að skák og reyndar brids og fleiri huglæg viðfangsefni séu íþróttir eins og hver önnur skilgreind íþrótt innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Ég gerði reyndar tilraun til þess á sínum tíma, þegar ég var í forustu Íþrótta- og Ólympíusambandsins, að greiða fyrir inngöngu og aðild skákíþróttarinnar inn í þau stóru samtök. Það tókst ekki af ýmsum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér en ég undirstrika það enn og aftur að skák og fleiri slíkar íþróttir sem menn stunda með huglægum hætti eru eðlilegur hluti af íþróttastarfi og íþróttum eins og þær eiga að vera rétt skilgreindar.

Ég er stuðningsmaður og meðflutningsmaður á tillögunni og þarf ekki að endurtaka ágætar ræður og ágæt rök sem komið hafa fram í þessari umræðu, sérstaklega af hálfu 1. flutningsmanns. Ég vildi aðeins lýsa yfir því að ég er mjög stoltur af því að vera meðflutningsmaður þessa góða máls. Ég tel sjálfsagt og réttlætanlegt að það skref sé stigið að stofna skáksetur í nafni Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar og sé ekki að neitt ætti að tefja fyrir því að það komist til framkvæmda sem allra fyrst. Ég lýsi yfir miklum stuðningi við málið og þakka fyrir flutning þess. Ég treysti því að það fái skjótan framgang.