135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[14:16]
Hlusta

Flm. (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er litlu við þetta að bæta, margar góðar ræður hafa verið fluttar í dag til stuðnings þessu máli af fólki sem ég treysti vel. Ég þakka það og þann breiða stuðning sem þessi þingsályktunartillaga fær því að það eru þingmenn úr öllum flokkum sem flytja málið og þingmenn úr öllum flokkum hafa talað við flutning þess í dag, þannig að ég efast ekkert um stuðning manna hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þetta er, eins og einhver sagði, þannig mál að það er hafið yfir allar slíkar deilur. Þetta er ekki pólitískt mál en þetta er afar íslenskt mál sem getur orðið okkur að liði í samfélaginu og heiðrar nöfn tveggja merkilegra manna sem allir Íslendingar þekkja til.

Einhverjir þingmenn ræddu það hér að þetta væri mesta afrek mitt á stjórnmálaferlinum. Ég skal ekkert segja um það, að mörgu hefur maður komið og sterk voru ráðherraárin átta. Ég skal ekkert dæma um það, það er alltaf erfitt að meta hvað er afrek eða ekki afrek í lífinu, en þetta er svona skrautfjöður. Menn höfðu rætt þetta við mig og sjálfsagt er hugmyndin ekki upphaflega mín því að mörgum manninum hafði dottið þetta í hug. Kannski er mesta afrek mitt að halda enn jöfnu við sjálfan Friðrik Ólafsson á skákborðinu svo að það er af ýmsu að tína en það er auðvitað tilviljun að það stendur enn.

Varðandi spurninguna um það hvar skáksetrið verði staðsett, þá vil ég taka fram að ég tel að skákhöfuðborg heimsins, sem við ætlum að gera Reykjavík að, eigi að varðveita þetta skáksetur, það eigi að vera í höfuðborginni. Við eigum ekki að deila um það, við ætlum að gera Reykjavík að skákhöfuðborg heimsins og þetta mundi styrkja það mál. Hér var heimsmeistaraeinvígið háð, Ísland er þekkt af Reykjavík og þótt ég sé landsbyggðarmaður tel ég augljóst að staðsetningin verði í höfuðborginni hvað þetta varðar. Við getum svo stofnað útibú og farið með skáksetrið um landið o.s.frv. en ég held að það fari best á því að höfuðborgin hafi þetta verkefni.

Svo er spurningin hvernig til tekst. Það er t.d. engin spurning að það var ekki lítið afrek að fá heimsmeistaraeinvígi Spasskís og Bobby Fischers hingað fyrir svona mörgum árum, 35, 36 árum. Það var mikið afrek þeirra manna sem komu því í gegn og fjármögnuðu dæmið. Þetta var dýrt því að skák var þá mjög dýr íþrótt og það datt kannski engum í hug að litla Ísland réði við það verkefni, það risaverkefni að taka að sér heimsmeistaraeinvígi í skák. Það voru mjög snjallir menn sem komu að því, ég nefni Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing, sem þá var ungur borgarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík og mikill áhugamaður um skák. Hann fór fyrir liði og hafði auðvitað mjög marga öfluga menn með sér en það var fyrir styrk þessara manna — þar hafa sjálfsagt lagt honum lið Einar S. Einarsson, Friðrik Ólafsson og fleiri — og svo auðvitað stjórnvalda landsins á þeim tíma að þetta tókst.

Ég held að það skipti líka miklu máli hvernig til tekst hjá hæstv. menntamálaráðherra, sem fær þetta mál í hendur verði það afgreitt sem þingsályktun frá Alþingi, að skipa starfshópinn og hverjir verða þar. Eins og ég sagði í upphafsræðu minni tel ég að möguleikarnir til að fjármagna þetta dæmi myndarlega séu mjög miklir, bæði frá öflugum, auðugum einstaklingum um víða veröld sem alltaf hafa sýnt skákinni og kannski líka þessum tveimur stóru meisturum mikinn áhuga, þar er peninga von, og við eigum líka sem betur fer marga öfluga einstaklinga og fyrirtæki sem mundu leggja þessu máli lið. Svo kæmi ríkisvaldið eitthvað að því, Reykjavíkurborg o.s.frv. Ég held því að grundvöllur sé til að gera þetta skáksetur mjög merkilega út sem mikla miðstöð, kannski á enn þá víðari sviðum en við áttum okkur á. Ég tek undir það sem kom fram í mörgum ræðum hér að það á auðvitað að tengja þetta öðrum atburðum og allri hugsun sem er í kringum skákina.

Áður en ég flutti málið ræddi ég það við Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem þá var formaður Skáksambands Íslands. Hún tók því vel og hafði mikinn áhuga á málinu eins og skákmenn eðlilega hafa og hún lagði mér gott lið við að undirbúa og fara yfir þetta mál.

Ég þarf ekki að bæta fleiru við, ég tek undir það með hv. þingmönnum að ég veit að menntamálanefnd fer vel með þetta mál og ég trúi því að hún afgreiði það fljótt. Ég tel enga ástæðu til að flytja þetta mál þing eftir þing. Þetta er mál sem skipaður verður starfshópur af menntamálaráðherra og það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem höfum áhuga á málinu að sjá hvað sá hópur leggur til. Síðan kann málið að koma aftur til þingsins með einum eða öðrum hætti þar sem við verðum á nýjan leik að leggja því lið annaðhvort í fjárlögum eða með öðru móti.

Ég þakka öllum þeim þungavigtarmönnum sem hafa talað hér í dag og flytja málið með mér.