135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Ríkisendurskoðun.

497. mál
[14:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur ýmis hlutverk með höndum. Það er að sjálfsögðu augljósast að standa að lagasetningu en einnig að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Ein af grundvallarstofnunum sem sinnir slíku hlutverki og heyrir undir Alþingi er embætti ríkisendurskoðanda. Þetta frumvarp lýtur að því hvernig standa skuli að ráðningu forstöðumanns þeirrar stofnunar.

Fram hefur komið í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, hvaða röksemdum við flutningsmenn teflum fram máli okkar til stuðnings. Ég vek athygli á því hve víðtæk samstaða er að baki þessu frumvarpi. Þar er að finna þingmenn úr fjórum flokkum á þinginu. Úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er auk mín hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem stendur að þessu frumvarpi.

Eins og málum háttar nú ræður forsætisnefnd þingsins ríkisendurskoðanda. En ég vil hamra á því sem fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að sá framgangsmáti eða sú tilhögun er ekki ýkja lýðræðisleg því að ef uppi er ágreiningur í forsætisnefnd þingsins er það á valdi forsetans að skera úr um þann ágreining. Ef mismunandi sjónarmið eru uppi um hvern beri að ráða til þessa mikilvæga embættis er það því forseti þingsins sem hefur endanlegt úrskurðarvald í því efni. Þetta frumvarp sem gerir ráð fyrir því að ráðningarvaldið verði fært til þingsins alls gengur því út á að færa ráðninguna í lýðræðislegra samhengi en nú er.

Ég tel mjög mikilvægt að hraða afgreiðslu þessa máls í ljósi þess að núverandi ríkisendurskoðandi mun láta af störfum von bráðar og að ráða verður mann í hans stað. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs hér til að lýsa mjög eindregnum stuðningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þetta þingmál.